Norski olíusjóðurinn hefur vaxið jafnt og þétt undanfarinn misseri og eru eignir hans nú komnar yfir eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 107 þúsund milljörðum króna.
Um 96 prósent af eignum sjóðsins eru geymdar í eignum utan Noregs.
Ótrúlegar stærðir
Upphæðin nemur um 21 milljón króna, miðað við núverandi gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu (107), á hvern íbúa Noregs. Íbúar landsins eru 5,1 milljón.
Til samanburðar eru eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins um 3700 milljarðar króna, eða sem nemur um 10,8 milljónum króna á hvern Íslending.
Norðmenn eru hins vegar líka með lífeyriskerfi, sem er alveg ótengt olíusjóðnum. Hann er varasjóður þjóðarinnar fyrir framtíðina.
Norsk stjórnvöld hafa þó örlítið - í hlutfalli við heildareignir - tekið fé úr sjóðnum til að byggja upp innviði heima fyrir.
Heildarumfang áætlunar Norðmanna þegar kemur að innviðum, samgöngumannvirkjum ekki síst, nemur 1.064 milljörðum norskra króna eða sem nemur um 15 þúsund milljörðum íslenskra króna. Áætlunin, sem er til 10 ára, miðar að því ekki síst að undirbúa norskt samfélag undir miklar tæknibreytingar. Þannig verður vegakerfið stórbætt, hafnir nútímavæddar, byggt upp 5G kerfi til auðvelda innleiðingu á gervigreindartækni og ýmsu fleiru. Fjármagn í þessi verkefni verður meðal annars sótt í sjóðinn, en aðeins með því að láta hluta af innstreyminu sem fer í sjóðinn að öllu jöfnu, renna í ríkissjóð Noregs og þaðan í áætlunina.
Norski olíusjóðurinn er stærsti fjárfestingasjóður sinnar tegundar í heiminum. Hann er í eigu norska ríkisins, en er með sjálfstæða stjórn sem heyrir undir Seðlabanka Noregs og fjármálaráðuneytið.
Einn áhrifamesti maður heims
Æðsti yfirmaður sjóðsins er Yngve Slyngstad, 54 ára gamall hagfræðingur frá Noregi. Hann hefur í tvígang verið á lista Forbes yfir hundrað áhrifamesta fólk heims, þá númer 72 og 74, vegna starfa sinna fyrir sjóðinn.
Umfang sjóðsins er með ólíkindum, miðað við það að hann er í eigu smáþjóðar. Hann á 1,3 prósent af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum, samkvæmt umfjöllun Financial Times, en innstreymið í sjóðinn kemur úr olíuauðlindum Noregs. Hagnaður olíufyrirtækisins Statoil er skattlagður beint um 78 prósent, en norska ríkið á tæplega 70 prósent hlut í fyrirtækinu á móti einkafjárfestum og er félagið skráð á markað í Noregi. Stór hluti þeirra sem eiga ríflega 30 prósent hlutabréfanna á móti norska ríkinu eru lífeyrissjóðir í Noregi og aðrir norskir fjárfestingasjóðir.
Hagnaðurinn af olíuauðlindunum rennur síðan í norska olíusjóðinn, sem ávaxtar hann eftir fjárfestingastefnu sinni á alþjóðamörkuðum. Sjóðurinn er áhrifamikill fjárfestir í öllum helstu geirum. Hann hefur ávaxtast að meðaltali um 3,3 prósent á ári, á síðustu árum.