Það kostar háar fjárhæðir að halda Alþingiskosningar oft. Af tíðum stjórnarskiptum, kosningum og óstöðugu stjórnarfari hlýst bæði beinn og óbeinn kostnaður fyrir þjóðfélagið.
Greiningardeild Arion banka fjallar um þetta í færslu á vef bankans í dag.
Kostnaður við að halda kosningar í ár er talinn vera að minnsta kosti 350 milljónir króna, eða því sem nemur mánaðarlaunum 619 ríkisstarfsmanna.
Þá er ótalið að í fjáraukalögum í fyrra var gert ráð fyrir 121 milljón krónum í biðlaun og annan kostnað vegna fráfarandi þingmanna. Greiningadeildin bendir þó að sá kostnaður sé eflaust lægri nú. „Þá var gert ráð fyrir 47 milljónum króna í ýmis útgjöld vegna búnaðar fyrir nýja þingmenn og standsetningu á húsnæði svo eitthvað sé nefnt,“ segir færslu greiningardeildarinnar.
Óbeinn kostnaður við óstöðugt stjórnarfar
Starfsmenn greiningardeildarinnar velta einnig fyrir sér óbeinum kostnaði við tíð stjórnarskipti, kosningar og óvæntar vendingar í heimi stjórnmálanna.
„Þegar mikil tíðindi verða í samfélaginu hópast landsmenn gjarnan fyrir framan sjónvarpsskjái, endurhlaða fréttasíður í gríð og erg, skeggræða landsmálin við vinnufélaga o.s.frv,“ segir á vef Arion banka.
„Það er þó hugsanlegt að skert athygli vinnandi fólks vegna stórra tíðinda, umfram það sem góðu hófi gegnir, feli í sér tapaða framleiðslu fyrir hagkerfið. Hversu mikið treystum við okkur ekki til að fullyrða nokkuð um en til þess að hægt sé að gera sér í hugarlund um hver áhrifin eru höfum við áætlað tap þjóðarbúsins miðað við meðallaun annars vegar og verga landsframleiðslu hins vegar að gefnu vinnutapi hvers vinnandi manns á Íslandi. Ljóst er að jafnvel þó meðalstarfsmaður tapi athyglinni í korter hleypur kostnaðurinn á hundruðum milljóna króna.“
Pólitískur óstöðugleiki er dýrkeyptur, ef miðað er við hagrænar samanburðarrannsóknir á þessu sviði. Skortur á stefnu og stöðugleika fælir til dæmis bæði innlenda og erlenda fjárfestingu og dregur úr hagvexti til lengri tíma. Bankinn bendir á að óvissa hafi sést glögglega á fjármálamörkuðum í kjölfar stjórnarslita. „Þar með getur áframhaldandi pólitísk óvissa, óstöðugleiki og stefnuleysi varanlega rýrt lífskjör á Íslandi.“
Sé litið til Ítalíu, friðsæls ríkis í Evrópu þar sem óstöðugt stjórnmálaástand hefur ríkt um langt skeið, kemur í ljós að tíð stjórnarskipti þar hafa orðið á sama tíma og hagkerfið hefur staðið í stað.
„Að hve miklu leyti óstöðugleiki í stjórnmálum er þar sökudólgurinn skal ekki segja, en það er nokkuð ljóst að óstöðugt stjórnarfar hefur ekki hjálpað efnahagslífinu á Ítalíu. Líklegt er að sama muni eiga við hér á landi ef þróunin síðustu misseri er það sem koma skal.“