John McCain, þingmaður Repúblikana úr Arizon ríki, segist ekki geta stutt breytingar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill gera á lögum um heilbryggðistryggingar, en megininntak þeirra er að afnema hið svonefnda Obamacare, sem tryggir lágmarksheilbrigðistryggingu fólks.
Þetta er í annað skipti á innan við þremur mánuðum sem McCain fer gegn vilja Trumps þegar kemur að heilbrigðistryggingum. Sjálfur hefur McCain sagt að hann sé ekki fylgjandi Obamacare og að það þarfnist endurskoðunar, en hann telur vilja Trumps ekki vera réttu leiðina út úr þeirri stöðu sem nú er uppi.
McCain þurfti að taka sér frí frá störfum í Washington vegna heilaæxlis, en snéri til baka til starfa í sumar, og stöðvaði þá fyrra frumvarp sem átti að afnema Obamacare. Afstaða hans skiptir sköpum fyrir framgang málsins, en einnig hafa Lisa Murkowski og Susan Collins, úr röðum Repúblikana, staðið gegn því að vilji Trumps nái fram að ganga.
Gangi vilji Trumps eftir munu ríflega 20 milljónir manna missa lágmarksheilbrigðistryggingu, með tilheyrandi kostnaðaraukningu fyrir fólkið, en á sama tíma mun efnafólk fá verulega skattaafslætti.
McCain segir í yfirlýsingu að hann geti ekki stutt núverandi þingmannafrumvarp, sem Bill Cassidy, frá Lousiana og Lindsey Graham frá Suður-Karólínu, hafa barist fyrir. Graham er nánasti bandamaður McCains úr röðum Repúblikana. Bill og Lindsey hafa talað fyrir því að nauðsynlegt sé að breyta núverandi kerfi, og að fyrir því muni þau berjast áfram.
McCain segist meðal annars ekki geta stutt málið vegna þess að hann telji að nánara samstarf milli Repúblikana og Demókrata þurfi að vera fyrir hendi, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times. Þá liggi heldur ekki fyrir hver kostnaðurinn verði af fyrrnefndri breytingu, og greining á áhrifunum á einstaka hópa, sem munu missa tryggingu, liggi heldur ekki fyrir.