Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við manndrápsmál. Kona lést seint í gærkvöldi í íbúð í vesturbæ Reykjavíkur og eru mennirnir tveir grunaðir um að ver viðriðnir málið.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við RÚV að rannsóknin sé á algjöru frumstigi, og varðist frétta af málinu.
Í fréttum mbl.is kemur fram að sérsveitin hafi verið kölluð til vegna málsins, og voru tveir sjúkrabílar sendir með hraði á svæðið um leið og tilkynning um atvikið barst.
Lögreglan hefur heimild til að halda mönnunum í einn sólarhring í tengslum við rannsóknarhagsmuni, en eftir það þarf að fara fram á gæsluvarðhald ef það á að halda þeim lengur. Slíkt er næstu alltaf gert í manndrápsmálum, enda alvarlegustu sem geta komið upp.