Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður í Reykjavík, verður varaformaður flokksins fram að landsfundi Sjálfstæðismanna á næsta ári.
Bjarni Benediktsson sagði frá þessu í fréttum Bylgjunnar í hádeginu í dag. Áslaug Arna var kjörin ritari flokksins, þriðju æðstu stöðu innan flokksins, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2015. Þá var Bjarni einnig endurkjörinn formaður og Ólöf Nordal valin varaformaður.
Ólöf lést fyrr á þessu ári og Sjálfstæðisflokkurinn hefur þess vegna verið varaformannslaus undanfarna mánuði.
„Við Áslaug Arna munum leiða flokkinn,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgunnar. „Ég hef beðið hana að taka við stöðu varaformanns og hún mun gegna því embætti meðfram því að vera ritari.“
Áslaug Arna var fyrst kjörin á þing í Alþingiskosningunum á síðasta ári. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn gekk í ríkisstjórnarsamstarf með Viðreisn og Bjartri framtíð var Áslaug Arna gerð að formanni allsherjar- og menntamálanefndar.
Sjálfstæðisflokkurinn mun stilla upp á lista í flestum kjördæmum fyrir kosningarnar 28. október næstkomandi.