Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, haga sér eins og „leikskólabörn“. Hann segir yfirlýsingar þeirra um stöðu mála á Kóreuskaga minna á þegar leikskólabörn eru í léttvægum slagsmálum og engin getur stoppað þau af.
Hann segir að það sé ekki hægt að fylgjast með Norður-Kóreu stunda tilraunir með kjarnorkuvopn án þess að gera neitt, en það sé heldur ekki valkostur að stofna til stríðs á Kóreuskaga.
Lavrov segir að stjórnmálin þurfi að leysa úr deilunni og róa niður ástandið, með virkri umræðu innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og á vettvangi þeirra. Aðeins þannig sé hægt að stuðla að vitrænum aðgerðum sem dragi úr spennu.
Trump og Jong Un hafa skipst á stóyrtum yfirlýsingum, í garð hvort annars, að undanförnu. Þannig gaf Trump í skyn að Jong Un væri veikur á geði og vitstola, á meðan Jong Un sagði orðin sem kæmu frá Trump væru líkt og gelt í hundi.
Mikil spenna er á Kóreuskaga en í síðustu tveimur flugskeytaskotum sínum hefur Norður-Kórea skotið flugskeytum yfir japanskt yfirráðasvæði. Það hefur vakið mikla reiði í Japan, og hefur Shinzo Abe forsætisráðherra krafist þess að alþjóðasamfélagið bregðist við af hörku. Í Suður-Kóreu eru virkar heræfingar alla daga, bæði á hafi úti og einnig skammt frá landamærum við Norður-Kóreu.
Þá hafa Kínverjar samþykkt að taka þátt í efnahagslegum þvingunaraðgerðum gagnvart Norður-Kóreu meðal annars með því að hefta bankaviðskipti og fjármagnsflutninga til landsins. Trump hefur krafist þess að þjóðir heims einangri Norður-Kóreu algjörlega og hefur hótað því að þær þjóðir sem stundi viðskipti við Norður-Kóreu hljóti verra af.