Vinstri græn eru orðin stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var fyrir Morgunblaðið dagana 19. til 21. september.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en samkvæmt könnuninni mælist fylgið við VG um 30 prósent. Flokkurinn fengi 22 þingmenn af 63 miðað við það, en í dag er þingflokkur VG upp á 10 þingmenn.
Samkvæmt könnuninni munar mikið um fylgi kvenna við VG en um 40 prósent kvenna segjast ætla að kjósa flokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar verulegu fylgi frá þingkosningunum í fyrra, samkvæmt könnuninni. Stuðningur við hann mælist 23 prósent og fengi hann 15 þingmenn í stað 21 sem hann hefur nú. Píratar myndu fá 10 prósent atkvæða og sex þingmenn ef kosið væri í dag. Flokkur fólksins fengi 5 þingmenn kjörna, en hefur engan þingmann núna. Björt framtíð næði ekki manni á þing.
Viðreisn mælist með 6 prósent og fengi þrjá þingmenn, Framsókn 11 prósent og 7 þingmenn og Samfylkingin 8 prósent og 5 þingmenn, og Píratar 10 prósent og sex þingmenn.
Könnunin var bæði síma- og netkönnun. Tvö þúsund manns voru í úrtakinu og fjöldi svarenda 908. Þátttökuhlutfall var 46%.