Samkomulag hefur náðst milli fimm þingflokka á Alþingi um hvernig skuli ljúka þingstörfum. Formenn og þingflokksformenn hafa fundið um framhalds þingstarfa í allan dag, og náðst hefur samkomulag um framhaldið á milli fimm flokka. Það eru Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri græn.
Frá þessu er greint á vef RÚV, en tveir flokkar sátu hjá og voru þannig ekki hluti af samkomulaginu, en það voru Samfylkingin og Píratar.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, greindi frá samkomulaginu á sjöunda tímanum í dag.
Ástæðan fyrir því að Samfylkingin og Píratar standa ekki að samkomulaginu er ágreiningur um málefni sem snúa að stjórnarskránni og hvernig skuli vinna að breytingum á henni.
Á meðal mála sem á að ræða um eru breytingar á lögum um uppreist æru og breytingar á útlendingalöggjöfinni.
Samkvæmt því sem segir á vef mbl.is verður sett á dagskrá frumvarp um brottfall ákvæðis um uppreist æru, frumvarp um bráðabirgðaákvæði í kosningalögum, frumvarp um breytingar á útlendingalögum, sem flutt verður af formönnum flokka sem það styðja, kosið verður um nýja fulltrúa í endurupptöku- og fullveldisnefnd, „velferðarnefnd mun ræða um NPA-frumvarp með það að markmiði að hægt verði að gera frumvarp að lögum á nýju þingi, verði vilji til þess, og að lokum verður lögð fram tillaga um frestun þingfundar,“ segir í frétt mbl.is.
Kosið verður 28. október næstkomandi og eru flokkarnir þegar byrjaðir að undirbúa kosningarnar. Vonir standa til þess að þinstörfum ljúki á morgun, en það fer þó eftir hversu hratt mál munu vinnast, sem samkomulag hefur náðst um að eigi að ræða.