Hagnaður af rekstri WOW Air samstæðunnar nam 4,3 milljörðum króna á árinu 2016 samkvæmt rekstrarreikningi.
Eigið fé samstæðunnar í árslok 2016 nam 5,9 milljörðum króna en glögglega má sjá á reikningi samstæðunnar að umfang rekstursins jókst mikið milli ára.
Á árinu 2016 flaug félagið til alls 29 áfangastaða þegar mest var með tólf flugvélar í fullum flugrekstri. Af 29 áfangastöðum jók samstæðan flug til Bandaríkjanna úr tveimur í fimm áfangastaði og hóf beint flug til Los Angeles og San Francisco.
Skúli Mogensen, forstjóri félagsins, stofnandi og eigandi í gegnum félagið Títan fjárfestingafélag, hefur sagt að áframhald verði á vexti félagsins, og hefur þetta ár einkennst af því með nýjum áfangastöðum og auknum umsvifum.
Tekjur og gjöld vaxa mikið
Mikil breyting varð á rekstri félagsins á árinu 2016 miðað við árið 2015. Þannig jukust tekjur af flugrekstri um tæplega 20 milljarða króna. Árið 2015 voru tekjurnar 16,6 milljarðar króna en í fyrra voru þær 35,7 milljarðar króna.
Að sama skapi jókst kostnaður úr 12,4 milljörðum króna í 26,2 milljarða.
Launakostnaður hækkaði um 3,2 milljarða króna, en hann fór úr 2,2 milljörðum króna árið 2015 í 5,4 milljarða í fyrra.
Innborganir á flugvélar vega þungt
Sé horft til eigna flugfélagsins, hefur orðið mikill vöxtur þar milli ára. Heildareignir voru metnar á 37,5 milljarða króna í lok árs í fyrra, en árið 2015 voru eignirnar 19,3 milljarðar.
Af þessum heildareignum eru rekstrarfjármunir 24,1 milljarður, innborganir á flugvélar og tryggingarfé 4,3 milljarðar, og viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur eru metnar á 7,1 millljarð. Þar vega þyngst kortakröfur, upp á 5,9 milljarða króna, að því er fram kemur í skýringum með reikningnum.
Eldsneytið stór þáttur
Eins og jafnan í flugrekstri er eldsneytiskostnaður stór kostnaðarliður. Í fyrra var hann 7,3 milljarðar króna, en árið 2015 4,3 milljarðar. Viðhaldskostnaður við flugvélar félagsins sexfaldaðist milli ára, og fór úr 303 milljónum króna í 1,8 milljarð.
Starfsgildum hjá félaginu hefur fjölgað hratt, en í árslok í fyrra voru þau 648. Í árslok 2015 voru þau hins vegar 264. Laun forstjóra og átta framkvæmdastjóra félagsins námu 199 milljónum króna, eða sem nemur ríflega 1,8 milljón á mann, sé mið tekið af meðaltali.
Umfangsmiklir leigusamningar vegna flugvéla
Leigusamningar vegna flugvélaga sem félagið notar eru miklir að umfangi, í samhengi við rekstur félagsins. Í lok árs í fyrra voru þeir metnir á ríflega 17 milljarða króna. Fram til ársins 2021 eru árlegar afborganir 1,7 milljarðar króna. Afborganir sem koma síðar en það eru ríflega 8 milljarðar króna. Vaxtakjör á fjármögnunarleigu í evrum miðast við þriggja mánaða EURIBOR auk 1,85% álags og í Bandaríkjadal er miðað við LIBOR auk 2,00% álags.
Hvers virði er félagið?
Vöxtur WOW Air hefur verið mikill, samhliða miklum vexti í ferðaþjónustunni hér á landi, og má segja að félagið sé nú í lykilhlutverki í ferðaþjónustu á landinu ásamt Icelandair Group. Það félag er skráð á markað og nemur markaðsvirði þess nú 71,6 milljörðum króna, en eigið fé félagsins nemur 61,3 milljörðum króna, miðað við núverandi gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal (USD=108 ISK).
Sé þessi staða notuð til að meta virði WOW Air þá nemur verðmiðinn 6,8 milljörðum króna. Mat sem þetta verður þó ávallt leikur að tölum, og útkoman mismunandi eftir því til hvaða forsendna er horft í aðferðarfræðinni.