Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist ekki geta tekið undir það að mikilvægasta þingmálið sem þurfi að ræða fyrir þinglok sé að koma börnum úr hópi hælisleitenda í skjól. Jafn mikilvægt sé að koma til móts við fjölskyldur og bú sauðfjárbænda vegna þess þess vanda sem sú grein standi frammi fyrir. Þetta sagði Gunnar Bragi í ræðu á Alþingi í dag.
Samkomulag náðist í gær um að þinglok yrðu að loknum þingfundi í dag. Málin sem verða afgreidd fyrir þinglok snúa meðal annars að brottfalli ákvæðis um uppreist æru, og frumvarp um bráðabirgðaákvæði í kosningalögum, og frumvarp um breytingar á útlendingalögum, sem flutt verður af formönnum flokka sem það styðja.
Gunnar Bragi sagði í ræðu sinni að þetta væru allt mikilvæg mál. „En ég spyr herra forseti, hvernig stendur á því að við erum ekki hér með á þessari dagskrá eitt brýnasta málið sem leysa þarf úr í dag. Og ég tek ekki undir með háttvirtum þingflokksformanni Vinstri grænna að mikilvægasta málið sé að koma börnum í skjól.[...]Það er mikilvægt mál. En það er jafn mikilvægt að koma til móts og bjarga fjölskyldum og búum sauðfjárbænda sem enginn hefur nefnt hér í þessum sal.“
Gunnar Bragi kallaði í kjölfarið eftir því að fá að vita hverjir hefðu staðið í vegi fyrir því að leysa mál sauðfjárbænda. Um þau hefði verið rætt á fundi formanna stjórnmálaflokka þegar verið var að reyna að komast að samkomulagi um þinglok en málið ekki fengist á dagskrá.
Tapið metið á 1,9 milljarða króna
Afurðastöðvar tilkynntu bændum í sumar að verð fyrir lambakjöt myndi lækka um 5 prósent í haust. Sú lækkun kemur ofan á tíu prósent lækkun sem átti sér stað í fyrra. Ástæðan er offramleiðsla. Mun meira væri framleitt en eftirspurn er eftir. Umfangið var talið vera um 1.200 tonn. Þetta leiðir til þess að laun sauðfjárbænda stefna í að verða 56 prósent lægri á þessu ári en í fyrra og nánast öll sauðfjárbú verða rekin með tapi. Sömu sögu er að segja með afurðarstöðvar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafði lagt til að settar yrðu 650 milljónir króna í aðgerðir sem eiga að mæta bráðavandanum og vinna að lausnum sem eiga að tryggja að þessi staða komi ekki upp aftur. Tillögurnar þurfti hins vegar að samþykkja á aukaaðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem skilyrði stjórnvalda fyrir fjárútlátunum kölluðu á breytingar á búvörusamningi.
Þau útgjöld sem samþykkt hafði verið að ráðast í í ríkisstjórn voru þó ekki nálægt þeim 1,9 milljarði króna sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa sagt að þurfti til að bæta sauðfjárbændum upp tap þeirra vegna framleiðslu ársins 2017. Samkvæmt búvörusamningi greiðir ríkið nú þegar fimm milljarða króna á ári vegna sauðfjárræktar.
Nú þegar ríkisstjórnin er sprungin og kosningar eru framundan er ljóst að ekkert verður af því að þessum tillögum, eða öðrum til að mæta bráðavanda sauðfjárbænda, verður hrint í framkvæmd.