Stjórn United Silicon hefur
óskað eftir kyrrsetningu hjá Sýslumanninum
á höfuðborgarsvæðinu
á eignum Magnúsar Garðarssonar,
fyrrverandi forstjóra kísilversins,
hér á landi.
Fyrirtækið, sem nú er í greiðslustöðvun,
vill tryggingu fyrir bótakröfu
sem það hefur gert á hendur
Magnúsi í kæru til embættis
héraðssaksóknara.
Frá þessu er geint í Fréttablaðinu í dag.
Eins og greint var frá 11. september síðastliðinn þá hefur stjórn United Silicon í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til Embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon. Í tilkynningu segir að kæran byggi á „grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila. Upplýsingarnar sem nú koma fram eru afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar. Hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst.“
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna. Greiðslustöðvun fyrirtækisins var framlengd í vikunni og gildir nú fram í desember.
Á meðal hluthafa og lánveitenda þess eru Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir. Alls nam fjárfesting lífeyrissjóða í verkefninu um 2,2 milljörðum króna. Þar af fjárfestu þrír lífeyrissjóðir sem eru í stýringu hjá Arion banka í verkefninu fyrir 1.375 milljónir króna. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagði til langstærstan hluta þeirrar upphæðar, eða 1.178 milljónir króna. Hinir tveir sjóðirnir eru Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Arion banki hefur þegar afskrifað allt hlutafé í United Silicon, sem var metið á einn milljarð króna. Alls átti bankinn 16,3 prósent í fyrirtækinu, en kröfuhafar hafa nú að mestu tekið eignarhald fyrirtækisins yfir. Alls skuldar United Silicon Arion banka um átta milljarða króna.
Magnús hefur sjálfur hafnað því alfarið að hafa brotið gegn lögum. Hann segir kæruna og aðrar ásakanir snúast um eignarhald á kísilverinu baráttu um það.