Mjög erfitt er að komast inn á húsnæðismarkaðinn vegna mjög mikilla verðhækkana á skömmum tíma. Ástæða þess að húsnæðismarkaðurinn kólnaði mikið í sumar var meðal annars sú að það var komið að þolmörkum hjá kaupendum. Þetta segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í kvöld klukkan 21. Þar verður húsnæðismarkaðurinn til umfjöllunar.
Una segir að fólk virðist hafa þanið sig mjög fjárhagslega til þess að kaupa húsnæði. Það sýni að það sé mjög erfitt að komast inn á markaðinn. „Við vorum með spurningakönnun og og spurðum fólk út í áform um væntanleg kaup út frá skuldastöðu. Skuldastaðan virðist ekki hafa nein áhrif. Fólk ætlar að reyna að kaupa til að komast úr þessu óöryggi sem er á leigumarkaði.“
Þessi staða gæti haft afleiðingar. „Það gæti skapast einhverskonar hættuástand ef við sjáum fasteignaverð allt í einu lækka og við sjáum fólk sitja eftir með yfirveðsettar eignir eins og gerðist í síðasta hruni.“