Enn og aftur eru Repúblikanar búnir að rekast á vegg í tilraunum sínum til að breyta heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum og afnema hið svonefnda Obamacare.
Öldungadeildarþingmenn Repúblikana ákváðu í gærkvöldi að hætta við að ganga til atkvæða um heilbrigðistryggingafrumvarp í Bandaríkjaþingi, en ljóst var að meirihluti var ekki fyrir frumvarpi vegna andstöðu hjá Repúblikunum. Þar fóru fremst í flokki John McCain, öldungadeildarþingmaður úr Arizona, og Susan Collins, öldungadeildarþingmaður úr Maine.
Þetta er í fjórða sinn sem Repúblikönum mistekst að ógilda núverandi lög, en Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur ítrekað lofað því að ógilda núgildandi lög.
Ljóst er að þetta er mikið áfall fyrir Repúblikana, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.
Fjárlaganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sagði frá því í gær, að greining hennar benti til þess að frumvarpið hefði lækkað útgjöld til heilbrigðismála um þúsund milljarða dala yfir áratug. Þá hefðu um 20 Bandaríkjamanna sem nú eru tryggðir orðið án heilbrigðistrygginga, einkum tekjulágt fólk og það sem glímir við alvarleg veikindi og ekki með neina heilbrigðistryggingu frá vinnuveitanda.