Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og áhrifamaður innan Viðreisnar, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki getað staðið við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem féll fyrr í mánuðinum né það sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafði samið við samstarfsflokkanna um. „Sjálfstæðisflokkurinn var veiki hlekkurinn í þessu stjórnarsamstarfi.“ Þetta kemur fram í viðtali við Þorstein í þættinum Ritstjórarnir sem er á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar í kvöld.
Þar segir Þorsteinn: „Það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem nánast í öllum málum hlupu út og suður. Þeir gátu ekki staðið við stjórnarsáttmálann og gátu ekki staðið við það sem formaður flokksins hafði samið um við aðra í ríkisstjórninni. Það var líka ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem klúðraði málinu sem felldi loks ríkisstjórnina - og sami ráðherra hafði raunar áður klúðrað skipun dómara við nýtt millidómsstig. Og nú hefur forystumaður innan þingflokksins upplýst að þingmenn hans hafi verið búnir að ákveða það að fella fjárlagafrumvarpið og þar með ríkisstjórnina fyrir jól.“
Gagnrýndi flokkinn líka harðlega í sumar
Þetta eru ekki fyrstu gagnrýnu ummæli Þorsteins á þessu ári um flokkinn sem hann veitti eitt sinn formennsku. Í sumar skrifaði hann grein á Kjarnann þar sem hann sagði Viðreisn og Bjarta framtíð vera að koma stórum málum á dagskrá. „Með hæfilegri einföldun má segja að við myndun þessarar stjórnar hafi Sjálfstæðisflokkurinn aðeins farið fram á skattalækkanir en óbreytt ástand að öðru leyti. Viðreisn og Björt framtíð vildu setja á dagskrá breytingar í landbúnaðarmálum, nýjar hugmyndir um veiðileyfagjöld, róttæka endurskipan á gjaldmiðils- og peningamálum og þjóðaratkvæði um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ skrifaði Þorsteinn. Þessi skrif fóru ekki vel í Sjálfstæðismenn.
Mörg erfið mál voru framundan
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem var samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sprakk aðfaranótt 15. september vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Björt framtíð sleit samstarfinu í kjölfar þess að í jós kom að faðir forsætisráðherra, Benedikt Sveinsson, skrifaði undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar, sem er dæmdur barnaníðingur, um að hann fengi uppreist æru. Samtals voru 87 prósent stjórnarmanna hjá Bjartri framtíð hlynntir því að slíta samstarfinu. Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt litlu flokkanna fyrir að hafa skort styrk til að standa í lappirnar við erfiðar aðstæður og ásakað þá um að hafa látið bága stöðu í skoðanakönnunum taka sig á taugum.
Töluverð togstreita hafði þó verið í stjórnarsamstarfinu frá upphafi og mörg mál sem upp komu reyndust ríkisstjórninni erfið. Má þar nefna skýrslumál Bjarna Benediktssonar, sjómannaverkfallið, skipun dómara við Landsrétt og lausn á erfiðri stöðu sauðfjárbænda.
Á komandi vetri stóð svo til að takast á um lykilkerfisbreytingar í íslensku samfélagi. Um landbúnaðarkerfið og hvort ráðast ætti í uppkaup á offramleiðslu fyrir ríkisfé, um breytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi og endurskoðun á umgjörð peningamála- og gjaldmiðlastefnunnar. Þá var fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verulega umdeilt, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins. Allt voru þetta mál sem myndu reyna verulega á saumana sem héldu ríkisstjórninni saman.
Þegar ríkisstjórnin sprakk glímdi hún við fordæmalausar óvinsældir ef miðað er við þann stutta tíma sem hún hafði setið. Einungis 27 prósent þjóðarinnar sagðist styðja hana og þær óvinsældir bitnuðu fyrst og síðast á litlu flokkunum tveimur, Bjartri framtíð og Viðreisn.