Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi útgefandi og aðaleigandi Pressunnar, hefur tilkynnt að boðað framboð til Alþingis sem hann vann að því að stofna muni ganga til liðst við nýja stjórnmálahreyfingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Sigmundur Davíð tilkynnti um það á sunnudag að hann hefði yfirgefið Framsóknarflokkinn og myndi stofna nýjan flokk utan um sjálfan sig.
Björn Ingi hefur áður tekið þátt í stjórnmálum. Hann starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra Framsóknarflokksins um skeið og sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd flokksins. Björn Ingi segir í stöðuuppfærslu á Facebook að hann hafi fengið ótrúlega mikil og jákvæð viðbrögð við tilkynningu sinni um að til stæði að stofna nýtt borgaralega sinnað framboð. „Nú hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagt sig úr Framsóknarflokknum og boðað nýja stjórnmálahreyfingu. Í því felast vatnaskil að mínu mati. Ég fagna því mjög að við Íslendingar fáum aftur tækifæri til að kynnast framtíðarsýn hans sem stjórnmálaforingja, enda geta flestir verið sammála um þann mikla árangur sem náðist fyrir land og þjóð undir hans forystu á sínum tíma.
Fremur en að dreifa kröftum framfarasinnaðs fólks tel ég mikilvægt að sameina það með samvinnu að leiðarljósi. Samvinnufólk ætlar því glaðbeitt að ganga til liðs við nýja miðjuhreyfingu Sigmundar Davíðs -- því það er verk að vinna og skammur tími til stefnu.“
Mun vera með listabókstafinn M
Líklegt er talið að flokkur Sigmundar Davíðs muni heita Miðflokkurinn og að listabókstafur hans verði M. Stuðningsmenn Sigmundar Davíðs eru þegar byrjaðir að safna meðmælendum og að fá fólk til að vera á framboðslista. Engin stefnuskrá hefur hins vegar verið birt, enn sem komið er.
Sigmundur Davíð tilkynnti um brotthvarf sitt úr Framsóknarflokknum í um 3.500 orða bréfi til flokksmanna sem hann birti á heimasíðu sinni um síðustu helgi. Bréfið var birt 90 mínútum áður en að aukakjördæmisþing Framsóknarmanna, þar sem taka átti ákvörðun um val á lista, hófst.
Í bréfinu fór hann í löngu máli yfir atlögur gegn sér. Sigmundur Davíð sagðist hafa treyst Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, „fyrir fjöregginu mínu“ þegar hann samþykkti að segja af sér sem forsætisráðherra í apríl 2016 og taldi sig hafa loforð upp á vasann um að Sigurður Ingi myndi ekki fara gegn honum. Í kjölfarið hafi hins vegar verið gerðar sex tilraunir til að fella hann, og það hafi loks tekist í byrjun október 2016, þegar Sigurður Ingi var kjörinn formaður flokksins.
Tengsl Björns Inga og Sigmundar Davíðs miðpunktur fjárkúgunarmáls
Í nóvember 2014 keypti Pressan, sem Björn Ingi stýrði á þeim tíma, meirhluta í útgáfufélaginu DV. Ekkert var gefið upp um hverjir hefðu fjármagnað þau kaup utan þess að hluti hafi verið greiddur með seljendaláni.
Í byrjun júní 2015 greindi Vísir frá því að tvær konur hefðu verið handteknar fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra. Konurnar heita Hlín Einarsdóttir og Malín Brand og eru systur. Samkvæmt reyfarakenndri frásögn fjölmiðla áttu þær að hafa sent handskrifað bréf heim til Sigmundar Davíðs þar sem þess var krafist að hann greiddi þeim um átta milljónir króna. Annars myndu upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir hann að verða gerðar opinberar. Málið var strax tilkynnt til lögreglu sem réðst í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til þess að systurnar voru handteknar, og síðar dæmdar.
Björn Ingi birti stöðuuppfærslu á Facebook sama dag og málið kom upp til að bregðast við þessum ásökunum. Þar sagði hann Sigmund Davíð ekki hafa fjármagnað kaup Pressunnar á DV og að hann ætti ekki hlut í blaðinu. Þar sagði hann einnig: „Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“
Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu um málið skömmu síðar. Þar sagði hann að bréf hafi verið sent á heimili hans, í umslagi merkt eiginkonu hans. Þar hafi verið skrifað að ef Sigmundur Davíð myndi ekki greiða nokkrar milljónir króna myndu fjölmiðlar fá upplýsingar sem ættu að reynast honum skaðlegar. Hann segir að af bréfinu að ráða virðast umræddar upplýsingar byggja á getgátum og sögusögnum. Í yfirlýsingunni segir einnig: "Vegna frétta sem birst hafa um málið í dag með vísan til hótananna er rétt að taka fram að ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt. Fjölskyldu minni er verulega brugðið vegna þessara atburða. Ég vil hvetja til hófstilltrar umræðu um málið og minni á að grunaðir gerendur eiga ættingja og vini sem liðið geta fyrir umfjöllunina."
Nær allir miðlar Pressunnar voru seldir til félags í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns fyrr í þessum mánuði og við það fór Björn Ingi út úr rekstri fjölmiðlasamstæðunnar. Kröfuhafar Pressunnar vinna nú að því að setja félagið í þrot og verður ein slík beiðni tekin fyrir í héaðsdómi 5. október næstkomandi. Hugur þeirra stendur til að rifta sölu fjölmiðlanna þegar gjaldþrot hefur verið staðfest og skiptastjóri skipaður yfir búið.