Stillt verður upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Þetta var ákveðið á fulltrúaráðsfundi í gærkvöldi og greint er frá málinu á mbl.is. Þar segir að uppstillingin verði sú sama og hún var í þingkosningunum í fyrra utan þess að allir færast upp um eitt sæti á lista flokksins í Reykjavík suður, þar sem Ólöf Nordal, fyrrverandi oddviti flokksins í kjördæminu, er látin.
Það þýðir að Brynjar Níelsson mun leiða flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður og Guðlaugur Þór Þórðarson mun leiða í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Kjördæmaráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi mun funda í kvöld um aðferð við val á framboðslista en fyrir liggur að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og starfandi forsætisráðherra, mun leiða þann lista.
Enn á eftir að afgreiða það hvernig listar Sjálfstæðisflokksins verða mannaðir í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Það verður gert um komandi helgi. Í kosningunum í fyrra leiddi Haraldur Benediktsson lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og Kristján Þór Júlíusson var í fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi. Þá var Páll Magnússon í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi. Verði ekki breytingar þar á munu því sex karlar verða í oddvitasætunum sex hjá Sjálfstæðisflokknum í komandi kosningum.