Alls segjast 56 prósent aðspurðra að þeim þyki mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. 23,5 prósent landsmanna þykir málið lítilvægt og 20,5 prósent eru ekki með afgerandi skoðun á því. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Stuðningur við nýja stjórnarskrá er meiri höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og mestur hjá stuðningsfólki Pírata og Samfylkingar. Einungis 15 prósent af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokks telja hins vegar mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili.
Munur á afstöðu eftir aldri og tekjum
Stuðningur við nýja stjórnarskrá er mestur hjá elstu og yngstu kjósendunum. Þá er meiri stuðningur við hana eftir því sem laun eru lægri en meirihluti er þó fyrir henni í öllum tekjuhópum. Þannig segjast 64 prósent þeirra sem eru með laun undir 400 þúsund krónum á mánuði telja mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en 51 prósent þeirra sem eru með yfir milljón krónur á mánuði í tekjur.
Stuðningurinn mun meiri hjá konum en körlum. Alls segjast 64 prósent kvenna að það þurfi nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili en 50 prósent karla.
Mikill munur hjá stuðningsmönnum flokka
92 prósent stuðningsmanna Pírata telja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili og 91 prósent stuðningsmanna Samfylkingar. Alls segja 76 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna að það sé mikilvægt. Innan Framsóknarflokksins segja 40 prósent að það þurfi nýja stjórnarskrá en 36 prósent telja að það sé lítilvægt. Hjá Viðreisn er afstaðan sambærileg, 39 prósent eru fylgjandi henni en 36 prósent telja málefnið lítilvægt. Andstaðan er mest afgerandi innan Sjálfstæðisflokks. Þar eru einungis 15 prósent aðspurðra fylgjandi nýrri stjórnarskrá en 46 prósent telja málið lítilvægt.
Könnunin var framkvæmd daganna 26-28. september og var úrtakið handahófskennt val á einstaklingum 18 ára og eldri úr hópi álitsgjafa MMR. Alls svöruðu 1.012 manns könnuninni.