Eignasafn Seðlabanka Íslands, sem að fullu er í eigu Seðlabanka Íslands, seldi í lok júní síðastliðins kröfu til félagsins Shineclear Holdings Limited. Nafnverð kröfunnar, sem er á hendur breska viðskiptamanninum Kevin Stanford, nemur 2,5 milljónum punda eða um 360 milljónum króna.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en blaðið hefur gögn undir höndum sem staðfesta þetta. Í umfjöllun ViðskiptaMoggans er fjallað um skjal sem Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri ESÍ, undirritaði 29. júní síðastliðinn, þar sem fram kemur að þessi krafa á hendur breska fjárfestinum hafi verið keypt af VBS-eignasafni hf. tæpum tveimur árum fyrr.
Shineclear Holdings Limited var stofnað á eyjunni Tortóla, sem er hluti af Bresku Jómfrúaeyjum í Karíbahafi. Fyrirtækið AMS Trustees Limited mun hafa stofnað félagið 1. mars síðastliðinn. Mun það hafa verið gert fyrir hönd Kaupþings, sem heldur á 57,9% hlut í Arion banka, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.
ESÍ er undanþegið upplýsingalögum, samkvæmt sérstakri ákvörðun þar um. Seðlabankinn hefur ekki viljað gefa upp upplýsingar um viðskipti félagsins, þegar eftir því hefur leitið, og hefur borið við lögum um bankaleynd sem nær til viðskipta bankans.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Bjarna Bendiktsson, þáverandi forsætisráðherra, út í viðskipti ESÍ í sumar, og voru svör hans birt á vef Alþingis. Spurningum Sigurðar Inga var að stóru leyti ekki svarað, þar sem því var borið við að ekki væri heimilt að veita nákvæmar upplýsingar um viðskipti ESÍ, umfram almennar upplýsingar í ársreikningi.