Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir að spádómur sinn um framundan væri tími mikillar óvissu og óstöðugleika í íslenskum stjórnmálum hafi ræst með afdrifaríkari hætti en hann hafi átt von á. Ástæðurnar séu að nokkru leyti tengdar íslensku samfélagi en að þær séu líka alþjóðlegar í eðli sínu líkt kosningar í til dæmis Bandaríkjunum og Frakklandi hafi sýnt fram á. Þetta kemur fram í viðtali við Ólaf Ragnar í Fréttablaðinu í dag. Um er að ræða fyrsta viðtal forsetans fyrrverandi frá því að hann lét af embætti í fyrra.
Segir spádóm sinn hafa ræst
Ólafur Ragnar tilkynnti í nýársávarpi sínu 2016 að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram til forseta, en hann hafði þá gegnt embættinu í tæp 20 ár. Í kjölfar Wintris-málsins, fjölmennustu mótmæla Íslandssögunnar og afsagnar forsætisráðherra sem þau leiddu af sér ákvað hann að hætta við að hætta. Um það tilkynnti Ólafur Ragnar 18. apríl 2016 og sagði þá að þótt Íslandi hafi að mörgu leyti miðað vel eftir bankahrunið væri ástandi enn viðkvæmt. „Í þessu umróti óvissu og mótmæla og í kjölfar nýliðinna atburða hefur fjöldi fólks víða að höfðað til skyldu minnar, reynslu og ábyrgðar og beðið mig að endurskoða ákvörðunina sem ég tilkynnti í nýársávarpinu. Um að gefa kost á mér á ný til embættis forseta Íslands.“
Nokkrum vikum síðar, þann 9. maí, tilkynnti Ólafur Ragnar að hann væri hættur við að hætta við að hætta. Þá höfðu birst skoðanakannanir sem sýndu að Guðni Th. Jóhannesson, sem síðar var kjörinn nýr forseti, hefði rúmlega tvöfalt meira fylgi en Ólafur Ragnar.
Í viðtalinu við Fréttablaðið í dag segir Ólafur Ragnar að hann hafi reynst sannspár um þá miklu óvissu sem væri í samfélaginu. „Það er merkilegt ef við horfum yfir þetta rúma ár, að rifja upp að þegar ég hélt blaðamannafundinn á Bessastöðum vorið 2016 og mikil ólga hafði verið í samfélaginu lýsti ég því yfir að fram undan væri tími mikillar óvissu og óstöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Ýmsir ypptu öxlum yfir þeim spádómi og töldu hann réttlætingu sem ég væri að búa til. Hann var einfaldlega byggður á greiningu sem sótt var í minn gamla akademíska feril og þeirri reynslu að fylgjast með stjórnmálum og þjóðmálum á Íslandi í nokkra áratugi. Þessi spádómur hefur, því miður, ræst með enn afdrifaríkari hætti en ég átti von á fyrir rúmu ári. Að nokkru leyti eru ástæðurnar tengdar íslensku samfélagi en þær eru líka alþjóðlegar í eðli sínu.“
Bendir líka til Bandaríkjanna og Frakklands
Því til stuðnings bendir Ólafur Ragnar á þá nýju forystumenn sem komið hefðu fram í aðdraganda kosninganna í Bandaríkjunum, Donald Trump og Bernie Sanders, og svo Emmanuel Macron í Frakklandi. Enginn þeirra hafi haft forystustöðu innan flokka sinna en samt allir náð ótrúlegum pólitískum árangri. Íslendingar séu staddir á þeim vegamótum að það sé mikil krafa um lýðræðislegar umbætur. Sú krafa sé eðlileg og skiljanleg og eigi sér aðdraganda sem tengist bæði upplýsingatækni, aukinni menntun og því að nýir hópar séu komnir fram. Ólafur Ragnar vill að þessi lýðræðislega gerjun fái svigrúm til að þróast. Hins vegar þurfi líka að vera til staðar stöðugleiki í stjórnkerfinu. „Þessi tvö markmið þurfa bæði að vera leiðarljós ef þjóðin ætlar með farsælum hætti að ná árangri. Verkefni þeirra sem eru núna á vettvangi hinna kjörnu fulltrúa er að reyna að sameina þetta tvennt. Að leyfa lýðræðislegri gerjun að fá framrás en glata ekki við það þeim stöðugleika og árangri sem þarf að ríkja í stjórnkerfi hverrar þjóðar.“