Monarch Airlines, fimmta stærsta flugfélag Bretlands, hefur misst flugrekstrarleyfið vegna rekstrarvanda og er búið að aflýsa öllu flugi félagsins. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Um 110.000 farþegar félagsins eru nú strandaglópar víða um heim og hefur breska flugmálastjórnin, CAA, leigt yfir þrjátíu þotur til að fljúga farþegum til síns heima.
Samkvæmt frétt BBC gæti mikið rask orðið á ferðaáætlunum farþegana og er varað við því, að marga daga geti tekið að koma fólki til síns heima.
Monarch Airlines er stærsta flugfélag sem svipt hefur verið flugrekstrarleyfi í Bretlandi, að því er segir í umfjöllun BBC. Um 2.500 starfa hjá félaginu, en það var stofnað árið 1968 og hefur vaxið jafnt og þétt síðast. Það hefur flogið með yfir sex milljónir farþega árlega, þegar mest hefur verið.
Stærsti eigandi félagsins, sjóðurinn Graybull Capital, hefur unnið að endurskipulagningu rekstrarins og meðal annars reynt að selja hluta starfseminnar til að losa um fjármuni og koma rekstrinum á rétta kjöl. Allt kom fyrir ekki, áður en frestur sem flugmálastjórnin hafi sett rann út, og því var flugrekstrarleyfið afturkallað.