Stephen Paddock, fjöldamorðinginn sem skot 59 til bana og særði yfir 500 á tónleikum í Las Vegas, var með í það minnsta 47 skotvopn, auk sprengisefnis og skotfæra, í fórum sínum. Þetta staðfesti lögreglan í Nevada á blaðamannafundi í nótt.
Skotvopnin voru á hótelhergi á 32. hæð Mandala Bay Resort, þar sem hann skaut á þúsundir manna á tónleikum, í húsi hans í Mesquite og síðan á stað sem ekki hefur verið gefinn upp ennþá.
Paddock skaut sig áður en sérsveitarmenn brutu sér leið inn á herbergi hans og lést hann samstundis af sárum sínum.
Skotárásin er ein sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu virðist Paddock hafa skipulagt árásina vel áður en hann lét til skarar skríða.
Hann lét byssukúlum rigna inn í mannfjölda sem taldi 22 þúsund manns, og var með sérstakan búnað á byssunum sem gerðu honum mögulegt að skjóta fleiri skotum á skemmri tíma. Þá var hann einnig með myndavélabúnað inn á herbergi sínu sem gerði honum mögulegt að fylgjast með lögreglumönnum og öðrum mannaferðum í nágrenni við herbergi hans og fyrir utan hótelið.
Rannsókn er enn í gangi, en lögreglan staðfesti að hann hefði nýlega millifært nokkur þúsund Bandaríkjadali til Filippseyja, en ekki hefur verið staðfest í hvaða tilgangi það var gert. Paddock var sterkefnaður en hafði aldrei komið við sögu lögreglu fyrr, nema í tengslum við hefðbundið eftirlit lögreglu.