Fjármálaeftirlitið telur að að Kvika banki hafi brotið gegn reglum um kaupauka með því að greiða starfsmönnum sínum um 400 milljónir króna í arðgreiðslur vegna B-hlutabréfa sem þeir áttu. Eftirlitið telur að greiðslurnar hafi í raun verið kaupaukar en ekki hefðbundnar arðgreiðslur til hluthafa. Með þeim hafi Kvika farið fram hjá reglum um kaupauka fjármálafyrirtækja. Kvika hefur lagt niður kerfið og óskað eftir því að fá að ljúka málinu með sátt og greiðslu sektar. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Gildandi reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi eru þannig að kaupaukar, oft einnig nefndir bónusar, mega ekki nema meiru en 25 prósent af árslaunum starfsmanna fjármálafyrirtækja og þá skuli ávallt fresta að lágmarki 40 prósent greiðslunnar í að minnsta kosti þrjú ár.
Kvika banki hefur viljað ekki upplýsa um hverjir eigi B-hlutabréf í bankanum. Ákveðið var á síðasta aðalfundi Kviku að B-hluthafar, sem samkvæmt upplýsingum Kjarnans eru að mestu starfsmenn bankans, myndu fá 525 milljónir króna í arð vegna síðasta árs. A-hluthafar fengu hins vegar enga arðgreiðslu. Markaðurinn segir að greiðslurnar sem fóru til starfsmanna séu um 400 milljónir króna.
Rannsókn hófst í vor
Greint var frá því í apríl að Fjármálaeftirlitið væri að kanna hvort tilteknar arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjum væru í raun kaupaukar, en samkvæmt lögum eru kaupaukar til starfsmanna fjármálafyrirtækja verulega takmarkaðir. Sem dæmi má nefna að Kvika mætti ekki greiða starfsmönnum sínum mörg hundruð milljónir króna í kaupauka samkvæmt þeim lögum enda takmarka þau kaupaukagreiðslur við það að vera fjórðungur af árstekjum hvers starfsmanns.
Forsvarsmenn Kviku hafa hingað til neitað því opinberlega að arðgreiðslur til B-hluthafa, sem eru aðallega starfsmenn bankans, sé leið til að komast fram hjá reglum sem takmarka kaupauka. Nú hefur Fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að arðgreiðslurnar til starfsmanna séu skýrt brot á þeim reglum.