Átaki hefur verið hrundið af stað til að fækka dauðsföllum af völdum kóleru um 90 prósent fyrir árið 2030. Alþjóðleg samtök um varnir gegn kóleru ætla í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld fjölda ríkja og stofnana að enda kólerufarald heimsins með metnaðargjarnri áætlun. Þetta er í fyrsta skiptið sem skuldbinding af þessu tagi hefur verið gerð og fagnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin henni.
Samkvæmt fréttastofu BBC munu fulltrúar átaksins hittast í Frakklandi en nú berst fólk í Jemen við einn versta kólerufarald sem vitað er um. Minnst 770.000 manns hefur sýkst í landinu og 2.000 dáið. Mörg fórnarlambanna eru börn.
Sjúkdómur fátæka mannsins
Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður sjúkdómur fátæka mannsins en hann er algengur þar sem margir búa á litlu svæði og þar sem hreinlæti er óbótavant. Um 2 milljarður manna búa við vatnsskort og talið er að um 95.000 manns deyi árlega af völdum kóleru. Tæplega þrjár milljónir manna sýkjast ár hvert og þykja þess vegna aðgerðir af þessu tagi brýnar.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir á vefsíðu sinni að þau taki glöð þátt í þessu sameiginlega frumkvæði til að stöðva dauðsföll af völdum kóleru. „Sjúkdómurinn herjast mest á fátæka og þá sem minna mega sín - þetta er algjörlega óviðunandi.“
Kólera landlæg í þróunarlöndunum
Kólera er sýking í meltingarfærum orsökuð af bakteríunni Vibrio cholerae en hún smitast með sýktu vatni. Þá er sérstaklega varasamt það vatn sem lítil hreyfing er í og lítið líf. Bakterían veldur miklum uppköstum, niðurgangi og krömpum og ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður með réttum aðferðum eða lyfjum getur sá sýkti dáið á mjög skömmum tíma af völdum vökvataps.
Sýkingar völdum V.cholerae eru afar sjaldséðar á vesturlöndum en sjúkdómurinn er landlægur í þróunarlöndunum þar sem hreinlæti er ábótavant. Á tímabilinu 1817 til 1961 komu upp sjö heimsfaraldrar sem oftast áttu uppruna sinn í Asíu og bárust hægt til Evrópu og Ameríku. Sá síðasti kom upp 1961 í Indónesíu og barst víða um heim á næstu áratugum. Allir þessir sjö heimsfaraldrar eru taldir vera af völdum Vibrio cholerae O1. Árið 1992 varð á Indlandi í fyrsta sinn vart sýkingar af völdum Vibrio cholerae O139. Þessi stofn hefur síðan þá greinst í a.m.k. 11 löndum í Suð-austur Asíu og ekki er ólíklegt að hann eigi eftir að dreifast víðar. Þetta kemur fram á vefsíðu Landlæknis.
Slæmar aðstæður leiða til kólerufaraldra
Á síðustu árum hefur kólera víða komið upp, oftast í tengslum við slæma hreinlætisaðstöðu og ófullnægjandi aðgang að hreinu vatni. Slíkar kringumstæður geta myndast við hamfarir sem rjúfa vatnsleiðslur og eyðileggja hreinlætiskerfi. Annað dæmi er fólksflutningar sem leiða til mikils mannfjölda sem dvelur við slæmar aðstæður í lengri tíma í flóttamannabúðum með takmarkaðan aðgang að hreinu vatni og viðundandi hreinslætisaðstöðu.
V.cholerae þrífst vel á vatnasvæðum. Hún getur lifað árum saman og fjölgað sér utan mannslíkamans. Bakterían myndar eiturefni sem veldur einkennum kóleru og mikinn fjölda baktería þarf til að valda sýkingu.
Áætluð kólerutilfelli á ári
Indland: 675.188 tilfelli og 20.266 dauðsföll
Eþíópía: 275.221 tilfelli og 1.458 dauðsfjöll.
Nígeria: 220.397 tilfelli og 8.375 dauðsföll.
Haítí: 210.589 tilfelli og 2.584 dauðsföll.
Heimildir: Johns Hopkins háskólinn