„Fyrir Sigmund Davíð skiptir mjög miklu máli að koma þremur helstu málefnum flokks hans á framfæri. Sem eru Sigmundur, Davíð og Gunnlaugsson.“ Þetta segir Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu í sjónvarpsþættinum Kjarnanum á Hringbraut í kvöld.
Þar eru ímyndarstjórnmál, nýjar tilhneigingar í stjórnmálum og kosningabaráttan fram undan til umræðu. Hinn viðmælandi Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans og stjórnanda þáttarins, er Andrés Jónsson almannatengill.
Andrés Jónsson segir að almennt séð sé ekki öll athygli góð athygli. Það sé mikilvægt að frambjóðendur séu sýnilegir af réttum ástæðum. Það að halda athygli á sér hjálpi þó til að ná árangri við að setja mál á dagskrá.
Aðspurður hvort að aðstæður eins og þær sem nú eru uppi, þar sem nær öll athygli er á einu framboði Miðflokksins, sem hefur enn ekki kynnt nein stefnumál né framboðslista, skaði aðra flokka í kosningabaráttunni segir Andrés Magnússon svo vera. Það skipti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, leiðtoga þess flokks og þann sem flokkurinn var stofnaður utan um, mestu máli að koma helstu áherslumálum sínum á framfæri. Þau áherslumál séu hann sjálfur. „Enn sem komið er hefur honum tekist mjög vel að kalla sitt fólk fram. Hitt fólkið var ekkert á leiðinni til hans flokks hvort sem var. Það skiptir hann ekki máli. En fyrir hina flokkanna á miðjunni, og aðra sem eru með popúlískar hneigðir skulum við segja, þá er þetta mjög erfitt ef hann er að ná svona mikilli athygli á sig. Ekki nein málefni, nema kannski Wintris-málið, sem ég fæ ekki séð hvernig aðrir flokkar eiga aðkomu að.“
Það sé erfitt fyrir aðra flokka að finna mál til aðgreina sig þegar kastljósið beinist annars vegar að stórum vinstri flokki, Vinstri grænum, og hins vegar að stórum hægri flokki, Sjálfstæðisflokknum, og síðan „þessum karli þarna á miðjunni.“