Hinn 20. september 2017 tók stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) þá ákvörðun að leggja stjórnvaldssekt að fjárhæð 72 milljónir króna á Arctica Finance ehf. vegna brota félagsins gegn 57. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki (fftl.) og reglum nr. 700/2011 og 388/2016 um kaupaukakerfi.
Brotin fólust í því að hafa greitt starfsmönnum kaupauka í formi arðs af B, C og D hlutum í félaginu frá og með 2012 til og með 2017.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá FME.
„Við ákvörðun sektarfjárhæðar var litið til markmiðs kaupaukareglna fjármálafyrirtækja,
sem er að koma í veg fyrir óhóflega áhættu í starfsemi þeirra með áhrifum á
fjármálastöðugleika og almenning, að teknu tilliti til þess að Arctica er
verðbréfafyrirtæki. Þá var horft til þess að brotin ná yfir sex ára tímabil, að stór hluti
starfsmanna naut kaupaukagreiðslnanna, að kaupaukarnir voru bundnir við árangur
þeirrar deildar sem viðkomandi starfsmaður starfaði í, að kaupaukarnir voru í sumum
tilvikum margföld föst laun viðkomandi starfsmanns og að regluverði félagsins var
greiddur kaupauki. Með hliðsjón af ofangreindum atriðum þótti stjórnvaldssekt
hæfilega ákveðin 72 milljónir,“ segir í úrskurðarorðum.
Kvika banki hefur lagt niður sitt kaupaukakerfi, eftir rannsókn FME, og óskað eftir því að ljúka málinu með sátt, að því er fram kom í Fréttablaðinu í gær. Starfsmenn sem áttu B-hlutabréf fengu um 400 milljónir í arð, en FME telur þetta fyrirkomulag ekki hafa verið lögum samkvæmt.
Arctica hyggst ekki una niðurstöðu FME, og ætlar að stefna eftirlitinu, þar sem það er mat Arctica að kerfið hafi verið lögum samkvæmt.
Í rökstuðningi FME fyrir ákvörðuninni varðandi Arctica Finance var litið til þess hvernig fyrirtækið hafði samið við starfsfólk, og hvert væri markmið þess fyrirkomulags sem var fyrir hendi.
„Fjármálaeftirlitið telur að almennt séð sé starfsmönnum fjármálafyrirtækja, öðrum en starfsmönnum innri endurskoðunar, heimilt að fjárfesta í hlutabréfum viðkomandi fjármálafyrirtækis. Sömuleiðis er viðurkennt að starfsmenn sem fjárfesta í fjármálafyrirtæki sem þeir starfa hjá eigi almennt séð kröfu til arðs af fjárfestingum sínum, án þess að arðgreiðslurnar þurfi endilega að teljast til kaupauka.
Í því máli sem hér var til skoðunar taldi Fjármálaeftirlitið þó ýmis atriði valda því að rétt væri að telja arðgreiðslur vegna B, C og D hluta í Arctica til kaupauka í skilningi 57. gr. a fftl. og í skilningi reglna nr. 700/2011 og 388/2016:
Í fyrsta lagi mætti ráða að engir aðrir en starfsmenn Arctica hefðu fengið að kaupa hlutabréf í umræddum flokkum og þá aðeins í þeim flokki sem tengdur væri afkomu deildarinnar sem starfsmaðurinn starfaði í.
Í öðru lagi hefði verið verulegur munur á fjárfestingu starfsmannanna og þeirri hagnaðarvon sem þeir hefðu getað gert til hlutabréfanna væri horft til arðgreiðslna til hluthafa í B, C og D flokki á árunum 2011 til 2017, sem námu samtals 715.043.691 krónum. Af því mætti ráða að verulegur munur væri á þeirri fjárhagslegu áhættu sem hluthafar B, C og D flokks hefðu tekið með fjárfestingum sínum og hagnaðarvonar þeirra.
Í þriðja lagi kveða samþykktir Arctica á um að við starfslok hjá félaginu skuli hluthafi í B, C og D flokki sæta innlausn á framreiknuðu nafnverði. Sú litla fjárhagslega áhætta sem hluthafar hefðu tekið með fjárfestingu í bréfunum hefði orðið enn minni við það að þeir gátu verið vissir um að við starfslok fengju þeir bréfin innleyst á sama gengi og þeir keyptu þau á. Arctica hefur gengið lengra við starfslok starfsmanna og bætt við nafnverðið fjárhæð sem svaraði til hlutdeildar hinna seldu hluta í þeim arði sem viðkomandi flokkur átti rétt til á því tímamarki sem starfslok viðkomandi starfsmanns áttu sér stað. Fjármáleftirlitið taldi síðastnefnda atriðið sýna að félagið hefði sjálft meðhöndlað arðgreiðslurnar sem hluta af launum starfsmannanna.
Í fjórða lagi kemur fram í ráðningarsamningum Arctica, við þá starfsmenn eignarstýringarsviðs sem jafnframt voru hluthafar í C flokki, undir liðnum „Laun“ að hluthöfunum sé tryggð greiðsla frá félaginu ef nýr aðili eignast meirihlutann í Arctica. Taldi Fjármálaeftirlitið þetta sýna að líta bæri á handhöfn a.m.k. C hlutanna sem lið í launakjörum starfsmanna, frekar en fjárfestingu í félaginu.
Fjármálaeftirlitið taldi að ofangreind atriði yllu því að ekki væri unnt að leggja
arðgreiðslur til hluthafa B, C og D flokka að jöfnu við venjulegar arðgreiðslur af
fjárfestingum í hlutabréfum.
Arðgreiðslur til hluthafa B, C og D flokks fólust í greiðslum í reiðufé. Endanlega fjárhæð
var ekki unnt að sjá fyrirfram með nákvæmum hætti, enda var fjárhæðin ákvörðuð eftir
reiknireglu sem tók tillit til rekstrarárangurs þeirrar deildar, sem viðkomandi flokkur var
tengdur við og hluthafar störfuðu í. Af fyrirliggjandi gögnum varð ekki ráðið að
greiðslurnar hefðu verið þáttur í föstum starfskjörum starfsmanna félagsins,“ í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins.