Íbúðalán lífeyrissjóða voru um 300 milljarðar í ágúst, og á tveimur árum hafa þau aukist um 130 milljarða króna. Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs, segir vísbendingar um að mörg heimili hafi endurfjármagnað lán með ódýrari lánum lífeyrissjóða, að því er fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag.
Á tímabilinu maí til loka ágúst námu ný íbúðalán sjóðanna hins vegar 55 milljörðum, sem er 14,5 milljörðum meira en fyrstu fjóra mánuði ársins.
„Það má segja að lífeyrissjóðirnir hafi gefið í. Þeir hafa leitt vaxtalækkanir á útlánum,“ segir Guðmundur í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.
Lægstu vextir lífeyrissjóðanna eru nú komnir í 2,77 prósent á verðtryggðum lánum, sem er töluvert fyrir neðan það sem bankarnir bjóða.
Lífeyrissjóðir landsins hafa lengi lánað sjóðfélögum sínum til íbúðarkaupa. Þau lán hafa þó verið þannig að mun lægra lánshlutfall hefur verið í boði sem gerði það að verkum að fólk sem átti lítið eigið fé gat illa nýtt sér þau lán.
Það breyttist haustið 2015 þegar sjóðirnir hækkuðu lánshlutfall sitt og bjóða upp á enn hagstæðari kjör.
Það var erfitt fyrir íslensku viðskiptabankanna, sem höfðu nær einokað íslenska íbúðalánamarkaðinn eftir hrun, að bregðast við þessu.
Þeir töldu sig ekki geta lækkað kjör á húsnæðislánum sínum meira en þeir höfðu þegar gert og báru fyrir sig tvenns konar ástæður sem skertu samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum á markaðnum. Í fyrsta lagi eru þeir skyldugir samkvæmt lögum til að eiga mun meira eigið fé en lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóðirnir þurfa ekki að sitja á svona miklu eigin fé. Raunar eiga þeir ekkert eigið fé.
Í öðru lagi þurfa stóru viðskiptabankarnir að greiða bankaskatt og sérstakan fjársýslukatt. Þeir skattar hafa ekki verið afnumdir þótt að íslensku bankarnir séu nær allir komnir í eigu íslenska ríkisins og búið sé að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um slit þrotabúa þeirra.
Í fjárlögum er til að mynda gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á árinu 2017 af bankaskatti, sem er 0,376 prósent af skuldum banka, verði 9,2 milljarðar króna. Bankarnir hafa haldið því fram að þessi skattur sé ekkert annað en álag ofan á útlán, sem almenningur þurfi á endanum að borga.