Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í ræðu sinni á landsfundi flokksins, sem hófst í dag, að almenningur kallaði eftir heilindum í stjórnmálum. Hún hvatti flokksmenn til að sýna samstöðu fram að kosningum, og kynna stefnu flokksins með samtölum við fólk. „Kæru félagar, það eru breyttir tímar - og breyttir tímar kalla á breytta pólitík. Lykillinn að pólitískum stöðugleika á Íslandi nútímans er sá að breyta vinnubrögðum að koma hreint fram; að vanda stjórnsýslu; að hlusta á önnur sjónarmið af virðingu. Og umfram allt: að stjórna landinu af skynsemi og yfirvegun. Þetta er ákall almennings. Og þetta er ákall sem við Vinstri-græn ætlum að svara. Við bjóðum betri forystu fyrir Ísland, og allt aðrar áherslur en við höfum haft undanfarin fjögur ár, forystu sem gerir betur og getur komið á alvöru pólitískum stöðugleika. Ekki stöðugleika sem byggir á því að festa ranglæti í sess heldur stöðugleika sem byggist á samfélagslegri sátt. Félagslegum stöðugleika,“ sagði Katrín í ræðu sinni.
Hugmyndasnauðir hægri menn
Katrín gagnrýndi enn fremur Sjálfstæðisflokkinn, og sagði hugmyndasnauða hægri menn halda uppi hræðsluáróðri sem engin innistæða væri fyrir. „Og reyndar eru þeir þegar byrjaðir með hræðsluáróður um skattahækkanir vinstrimanna. Sjálfur skattaflokkurinn. Því hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert annað en að hækka skatta á almenning? Eða var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn í félagi við Framsókn sem hækkaði virðisaukaskatt á matvæli á síðasta kjörtímabili? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn og fylgitungl hans sem boða nú veggjöld í massavís? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu? Sjálfstæðisflokkurinn getur lítið sagt um aðra. Hann er skattaflokkur,“ sagði Katrín.
Í ræðunni talaði hún fyrir mikilvægi félagslegra innviða, uppbyggingu mennta- og heilbrigðiskerfisins, og sagðiað Vinstri græn ætluðu sér ekki að hækka skatta á almenning heldur reka sanngjarna skattastefnu. „Allir tekjuhópar - nema þeir allra ríkustu - borga hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt nú en fyrir 4 árum. Og þetta er sama þróun og við sáum á árunum 1991 til 2009,“ sagði Katrín.
Ræðan í heild sinni, fer hér á eftir.
„Kæru félagar, góðir gestir.
Í upphafi þessa fundar vil ég fagna því að félagar okkar í ICAN, samtökum sem berjast gegn kjarnorkuvopnavá, hlutu Friðarverðlaun Nóbels í morgun, en við í Vinstri-grænum höfum verið óþreytandi að berjast fyrir því að Ísland taki afgerandi afstöðu gegn kjarnorkuvopnavánni á alþjóðavettvangi. Þessi verðlaun hleypa nýjum krafti í okkar baráttu hér heima.
En kæru félagar.
Í morgun heimsótti ég þann félaga sem samkvæmt félagatalinu er elsti félagi hreyfingarinnar okkar, Sigrúnu Pétursdóttur, sem er 97 ára að aldri. Sigrún missti föður sinn, verkalýðsleiðtoga á Sauðárkróki, tíu ára gömul og átti heilsuveila móður. Hún fékk aldrei að mennta sig en vann alla ævi frá 12 ára aldri. Hún þurfti að hætta störfum um sjötugt og hefði gjarnan viljað vinna lengur, eins og eldri borgarar samtímans kalla einmitt eftir. Enda fór hún í áhugaleikfélag og lék síðast í verki eftir Dario Fo, þá níræð. Hún biður fyrir bestu kveðjur til fundarins.
Það er þessi saga sem er svo mikilvæg. Sagan sem eldri kynslóðir á Íslandi skópu. Velferðarsamfélagið sem var byggt upp fyrir baráttu harðduglegra karla og kvenna sem börðust fyrir auknum réttindum á vinnumarkaði, betri kjörum og bættu húsnæði. Uppbygging héraðsskóla, menntaskóla og síðar fjölbrautarskóla. Uppbygging Háskóla Íslands sem lengi vel var hýstur í þinghúsinu. Baráttan fyrir almennu heilbrigðiskerfi. Landspítalinn okkar sem var byggður af stórhug vegna baráttu kvenna en þar var fyrsti sjúklingurinn lagður inn 1930. Heilsuverndarstöð Reykjavíkur sem vígð var 1957, einstök bygging sem bar vitni um hugsjónir á tímum þar sem Íslendingar voru mun fátækari þjóð en nú um mundir. Sú hugsjón snrust um að efla heilsu, koma í veg fyrir sjúkdóma og slys, efla mæðravernd og ungbarnaeftirlit. Og fyrsti yfirlæknir heilsuverndar barna var konan sem ég er nefnd eftir, Katrín Thoroddsen, en hún var ekki síst þekkt fyrir að tala beint við börnin en ekki við foreldrana sem þótti nýstárlegt á þeim tíma.
Á tímum í Íslandssögunni þar sem efnin voru minni voru hugsjónirnar stórar. Og það sem ég heyri, og það sem við öll heyrum, er að fólkið í landinu furðar sig á þeirri þversögn sem blasir við að á tímum þar sem allir efnahagslegir mælikvarðar vísa í eina átt virðist samt ekki hægt að ráðast í þá nauðsynlegu uppbyggingu samfélagsstofnana sem er nauðsynleg. Það er látið eins og við höfum ekki efni á góðri heilbrigðisþjónustu, góðum skólum, góðu vegakerfi. Við segjum: Hér þarf stefnubreytingu. Nú þarf að setja þarfir almennings í forgang og það er það sem við ætlum að gera fáum við til þess umboð í komandi kosningum.
Kæru félagar.
Við stöndum hér á þessum landsfundi með óvæntar kosningar í augsýn eftir einungis þrjár vikur. Og staðan sem blasir við er þessi:
Síðasta ríkisstjórn hrökklaðist frá og við heyrum skýra kröfu frá fólkinu í landinu sem vill breytta tíma, nýja ríkisstjórn sem setur hagsmuni almennings í forgang.
Ísland þarf trausta ríkisstjórn - sem vill gera betur fyrir fólkið í landinu
og springur ekki vegna vantrausts og leyndarhyggju löngu áður en kjörtímabilið klárast.
Gerum betur.
Gerum betur er slagorð okkar Vinstri-grænna í þessum kosningum;
því það þarf að gera svo miklu betur á svo mörgum sviðum
og við treystum okkur til þess.
Ef fólkið í landinu vill breyttar áherslur í stjórn landsins þá segjum við: Gjörið svo vel, skoðið stefnuskrá okkar og skynjið kraftinn sem býr í okkur.
Þess vegna göngum við nú til fundar við fólkið í landinu
og óskum eftir umboði til að mynda góða og trausta ríkisstjórn.
Við skulum vera baráttuglöð og bjartsýn;
ég hlakka til að vinna með ykkur og ég hlakka svo sannarlega til að láta verkin tala eftir kosningar.
Þó það sé vissulega vont að þurfa að halda kosningar ár eftir ár
þegar ríkisstjórnir hafa sprungið vegna spillingarmála og vantrausts,
þá er nú samt gott að Íslendingar skuli fá nýtt tækifæri til að ganga til kosninga núna þann, 28. október;
það er gott - því það er löngu kominn tími á breytta stefnu og betri stjórn;
ríkisstjórn sem nýtir tækifærin og sér möguleikana í framtíðinni.
Kæru félagar,
nú er mikið talað um að það þurfi stöðugleika í stjórnarfarið í landinu.
Og það er alveg rétt.
En það er nú samt þannig að þeir stjórnmálamenn sem tala hvað hæst og mest um stöðugleika
- eru einmitt þeir sem síst hafa efni á því.
Eða hvað þykjast þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins
geta sagt kjósendum um pólitískan stöðugleika?
Þetta er flokkurinn sem leiddi hrunstjórnina, sat í Panamastjórninni
og leiddi nú síðast þá stjórn sem starfaði svo stutt að ekkert nafn hafði fundist á hana.
Hver er lykillinn að pólitískum stöðugleika?
Ef þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins væru spurðir væri svarið líklega:
„stórir og sterkir stjórnmálaflokkar“ - og já, þeir verða víst helst að vera gamlir líka. Og íhaldssamir.
Óstöðugleikinn er alltaf einhverjum öðrum að kenna..
Hvernig væri að líta í eigin barm?
Staðreyndin er sú að pólitískur stöðugleiki á Íslandi nútímans næst ekki með gamaldags frekjupólitík;
pólitík þar sem „stórir og sterkir flokkar“ berja öll mál í gegn með offorsi og yfirgangi án þess að hlusta á gagnrýni eða aðrar raddir
og helst með minnsta mögulega meirihluta.
Þetta er vond og úrelt hugmynd og auðvitað springur slík ríkisstjórn!
Kæru félagar,
það eru breyttir tímar - og breyttir tímar kalla á breytta pólitík.
Lykillinn að pólitískum stöðugleika á Íslandi nútímans er sá að breyta vinnubrögðum að koma hreint fram; að vanda stjórnsýslu; að hlusta á önnur sjónarmið af virðingu.
Og umfram allt: að stjórna landinu af skynsemi og yfirvegun.
Þetta er ákall almennings.
Og þetta er ákall sem við Vinstri-græn ætlum að svara.
Við bjóðum betri forystu fyrir Ísland,
og allt aðrar áherslur en við höfum haft undanfarin fjögur ár,
forystu sem gerir betur og getur komið á alvöru pólitískum stöðugleika.
Ekki stöðugleika sem byggir á því að festa ranglæti í sess heldur stöðugleika sem byggist á samfélagslegri sátt. Félagslegum stöðugleika.
En pólitískur stöðugleiki er nefnilega ekki allt.
Hann er til dæmis lítils virði ef allir innviðir eru vanræktir;
menntakerfið fjársvelt og grafið undan heilbrigðiskerfinu okkar.
Og hvers virði er pólitískur stöðugleiki fyrir fólk sem er haldið niðri í stöðugri fátækt? Nær ekki endum saman um hver mánaðamót á sama tíma og talað er um efnahagslegan uppgang á öllum sviðum samfélagsins. Það er nefnilega stóra þversögnin í íslensku efnahagslífi og hana ætlum við að takast á við.
Stóra verkefni næstu ríkisstjórnar er nefnilega ekki aðeins að springa ekki snemma á kjörtímabilinu.
Nei, gerum betur en það.
Stóra verkefni næstu ríkisstjórnar er að koma á alvöru stöðugleika fyrir fólkið sem býr í þessu landi.
Og þegar ég segi alvöru stöðugleiki, þá á ég við öfluga uppbyggingu fyrir atvinnulífið og byggðirnar, menntakerfið og heilbrigðisþjónustuna, aldraða og öryrkja og svo mætti lengi telja.
Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að láta innviði landsins mæta afgangi í miðju góðæri.
En það er nú samt einmitt það sem síðustu tvær ríkisstjórnir hafa gert.
Gerum betur.
Kæru félagar,
við Vinstri græn höfum skýra sýn sem á brýnt erindi við þjóðina.
Þessi sýn snýst ekki einungis um hvernig við stundum stjórnmálin;
hún snýst fyrst og fremst um það hvernig samfélagi við viljum tilheyra
og hvernig Ísland getur tekist á við áskoranir 21. aldarinnar.
Við trúum því að samfélaginu vegni best þegar allir fá tækifæri, ekki bara sumir; allt fólk, óháð efnahag, uppruna, aldri, kyni, búsetu.
Við viljum öflugt atvinnulíf og skattastefnu fyrir almenning.
Okkur finnst fátækt vera ríku samfélagi til skammar,
ekki síst þegar hún er látin bitna á börnum og eldri borgurum.
Og síðast en ekki síst, ágætu félagar,
þá erum við hreyfing sem var stofnuð af náttúruverndarsinnum og femínistum.
Þessu skulum við aldrei gleyma.
Þetta þótti stórskrýtið undir lok síðustu aldar þegar hreyfingin okkar var stofnuð,
en nú er flestum orðið ljóst að okkar fólk var á einfaldlega langt á undan sinni samtíð. Kolbrún Halldórsdóttir, svo ég nefni nú þá lærimóður mína, var til dæmis langt á undan sinni samtíð.
Því nú er allt í einu náttúruvernd og femínismi í stefnuskrám allra flokka sem er fagnaðarefni og besta mál.
En við erum græn í grunninn og við vorum alltaf femínistar, löngu áður en það var kúl,
og þetta er aðeins eitt dæmi um það hvað hreyfingin okkar hefur alltaf verið framsýn.
Kæru vinir, áskoranir 21. aldarinnar eru gríðarlegar
og líklega tekur heimurinn í kringum okkur hraðari breytingum nú en nokkru sinni fyrr.
Við slíkar aðstæður þurfum við - sem búum hér á þessari ágætu eyju í miðju Norður-Atlantshafinu - að vera framsýn.
Við þurfum að vera djörf og opin fyrir breytingum;
en um leið þurfum við að reyna að vera skrefi á undan og tilbúin að takast á við þessar breytingar.
Hvernig tökumst við til dæmis á við tæknibyltingu samtímans?
Hvað ætlum við að gera til að vinna gegn hlýnun loftslags?
Hvernig sigrumst við á samfélagsmeini eins og kynferðisofbeldi?
Hvernig tryggjum við að lýðræði muni virka eins og það á að gera?
Hvernig tryggjum við almannahagsmuni?
Við Vinstri græn höfum skýra sýn fyrir landið okkar um það hvernig á að takast á við þessi risastóru viðfangsefni.
Við vitum að til að mæta tæknibyltingunni þarf að hafa trú á menntun, rannsóknum og nýsköpun. Við vitum að við þurfum að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að breytingum og þróun á vinnumarkaði. Við vitum að það þarf að huga að allri löggjöf, ekki síst mannréttindum, í tengslum við þessar breytingar þannig að þær muni ekki stuðla að aukinni stéttskiptingu heldur einmitt auknum jöfnuði.
Við vitum að það er hægt að vinna gegn loftslagsbreytingum. Við vitum að með því að kalla alla að borðinu; háskóla- og vísindasamfélagið, aðila vinnumarkaðarins, umhverfisverndarsamtök, almenning, sveitarfélög og stofnanir er hægt að vinnu að kolefnishlutleysi með því fyrst og fremst að draga úr losun, til dæmis í gegnum orkuskipti í samgöngum, stóriðjustoppi, og kolefnishlutleysi í öllum atvinnugreinum (landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu) en líka með því að auka bindingu og gera Ísland kolefnishlutlaust 2040.
Við vitum að það þarf að gera átak líkt og við unnum að á kjörtímabilinu 2009-2013, átak gegn kynferðisofbeldi. Við eigum þær tillögur allar tilbúnar; um úttekt á réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis og í kjölfarið endurbætur og heildarendurskoðun á kerfinu, átak í fræðslu og forvörnum, fullgildingu Istanbúl-sáttmálans og áframhaldandi viðhorfsbreytingu í samfélaginu öllu.
Við vitum að við getum tekið á móti fleiri flóttamönnum og innflytjendum og við treystum okkur til að byggja upp innviði til að taka á móti þessu fólki sem auðgar samfélagið okkar allt og gerir það betra. Við getum gert miklu betur og leyfum engum að stilla upp innflytjendum og flóttafólki sem andstæðingum einhverra annarra sem eiga undir högg að sækja. Við erum öll saman í þessu samfélagi.
Við vitum að það er hægt að vinna með opnari og lýðræðislegri hætti en tíðkast hefur. Við getum beitt aðferðum þátttökulýðræðis í mun meira mæli en gert hefur verið til, til dæmis rökræðukannanir og þjóðfundi, um afmörkuð mál. Þannig sjáum við fyrir okkur að megi halda af stað af nýju með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og skapa breiðari samstöðu um hana en náðst hefur.
Og nú ríður á, kæru félagar, að við fáum góða kosningu þann 28. október
og umboð almennings til láta þessa sýn varða veginn inn í framtíðina.
Gerum betur.
En kæru félagar, hver eru stóru kosningamál Vinstri grænna árið 2017?
Einn félagi sagði við mig í vikunni:
„Það liggur nú í augum uppi,
við förum bara fram með sömu kosningamál og í fyrra
því það hefur ekkert breyst.“
Og það er nú nokkuð til í því.
Fráfarandi ríkisstjórn byrjaði á að kynna stjórnarsáttmála um ekki neitt
og fylgdi því síðan eftir á viðeigandi hátt með því að gera ekki neitt.
Fyrir kosningarnar á síðasta ári spurðum við kjósendur: Hverjum treystir þú?
Og sú spurning snerist ekki aðeins um traust til að starfa af heiðarleika og stunda betri stjórnmál.
Spurningin átti líka að hvetja kjósendur til að velta því fyrir sér hverjum væri treystandi
til að standa við stóru orðin.
Um endurreisn heilbrigðiskerfisins, sókn í menntamálum, uppbyggingu innviða og svo framvegis.
En flokkarnir í fráfarandi ríkisstjórn felldu grímuna,
og það hefur komið á daginn að fögur fyrirheit þessara flokka voru innantóm orð.
Við Vinstri-græn stöndum hins vegar fast á okkur málum, óhögguð,
og getum endurtekið spurningu okkar til kjósenda:
Hverjum treystir þú?
Þó að fráfarandi ríkissjórn hafi ekki komið svo mikið sem einu fjárlagafrumvarpi í gegnum þingið
þá vitum við samt hvað til stóð.
Því þremur dögum áður en stjórnin sprakk lagði hún fram fjárlagafrumvarp,
byggt á fjármálaáætlun, sem var samþykkt af stjórnarþingmönnum síðastliðið vor.
Þetta eru mikilvæg plögg því þau gera kjósendum kleift að sjá í gegnum fagurgala og loforðaflaum.
Staðreyndin er sú að í fjögur ár hafa stjórnvöld í landinu verið eins og lömuð
þegar kemur að mikilvægustu málaflokkunum - og þá sérstaklega í heilbrigðis- og menntamálum.
Fráfarandi ríkisstjórn lofaði því að stórauka framlög til heilbrigðismála.
Í fyrsta lagi, þá þarf ekki aðeins að leiðrétta fyrir verðlagi;
við erum ennþá langt frá því að halda í við fólksfjölgun og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.
Svo ég tali nú ekki um tvær milljónir ferðamanna.
En í öðru lagi - og þetta er alvarlegra - þá hræra talsmenn ríkisstjórnarinnar vísvitandi saman útgjöldum til byggingar nýs Landspítala og þeim útgjöldum sem eru nauðsynleg til að standa undir rekstri heilbrigðiskerfisins.
Það þarf að gera greinarmun á rekstri og fjárfestingu, þetta hljóta ráðherrar ríkisstjórnarinnar að vita.
Það var nauðsynlegt að setja fjármagn í nýjan spítala - og við erum ánægð með að það hafi loksins verið gert - en þetta eru fjármunir sem fara í steinsteypu.
Það þarf samt ennþá að endurreisa sjálft heilbrigðiskerfið; rekstur þess og þjónustu við sjúklinga
Í staðinn er alltaf gripið í þessar sömu gömlu gervilausnir:
Reynt að færa meira í hendur einkaaðila og grafa undan heilbrigðiskerfinu okkar;
reynt að brjóta heilbrigðiskerfið upp í lítil einkafyrirtæki
sem eru afhentar eignir og græða á tá og fingri - en enginn ber neina ábyrgð;
og allt er þetta á kostnað ríkissjóðs og þeirra sem eru veikir.
Í samgöngumálum er það sama uppi á teningnum.
Það á bara helst að koma þeim í einkaframkvæmd og leggja á vegatolla
einungis vegna þess að stjórnvöld treysta sér ekki til þess að byggja upp innviðina eins og vera ber.
Og í menntamálum - þar er nú metnaðarleysið algjörlega einstakt í samanburði við önnur þróuð ríki.
Útgjöld til háskólanna eru langt undir meðaltali þróaðra ríkja
og síðustu tvær ríkisstjórnir hafa reynt leysa úr þessu með því að fækka nemendum;
draga úr aðgengi að háskólamenntun.
Hvers konar stefna er þetta eiginlega?
Hvaða sýn býr þarna að baki?
Er það svona sem við tökumst á við tæknibyltingu 21. aldarinnar?
Og sama má segja um framhaldsskólana þar sem ákveðið var einhliða að stytta námið í þrjú ár í stað þess að gefa skólunum faglegt sjálfstæði og svigrúm eins og gert er ráð fyrir í lögum um framhaldsskóla. Því var lofað af þáverandi menntamálaráðherra að þetta væri ekki sparnaðarráðstöfun heldur myndu fjármunirnir sem spöruðust nýtast inn í kerfið. Fráfarandi ríkisstjórn var ekki lengi að breyta því og taka alla þessa fjármuni út úr kerfinu í algjöru metnaðarleysi.
Nei, kæru vinir, gerum betur.
Höfum trú á framtíðinni með því að
endurreisa heilbrigðiskerfið okkar.
Það þarf að verja meiru til heilbrigðismála en líka að forgangsraða í þágu hins opinbera kerfis; sjúkrahúsanna, heilsugæslunnar, heilbrigðisstofnana út um land. Það þarf að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga og tryggja að fólk sé ekki sligað af reikningum fyrir nauðsynlegum lyfjum og læknisþjónustu. Það þarf að verja meiru í forvarnir og lýðheilsu.
Það þarf að blása til sóknar í menntamálum. Þar er undirstaðan fyrir framtíðina, öflug menntun, rannsóknir og nýsköpun. Þar eigum við að fjölga nemendum en ekki að fækka, efla gæðin en ekki rýra.
Það þarf að byggja upp innviðina um land allt. Auka raforkuöryggi um allt land, bæta samgöngur eða fjarskipti.
Við getum gert það og við eigum að gera það.
Gerum betur.
Kæru vinir,
hugmyndasnauðir hægrimenn munu halda því fram að þetta sé ekki hægt;
það sé bara ekki til nóg af peningum.
Hvernig? segja þeir.
Hver á að borga?
Þarf ekki að hækka skatta á almenning og fyrirtæki til að standa undir þessari stefnu?
Og reyndar eru þeir þegar byrjaðir með hræðsluáróður um skattahækkanir vinstrimanna. Sjálfur skattaflokkurinn. Því hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert annað en að hækka skatta á almenning? Eða var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn í félagi við Framsókn sem hækkaði virðisaukaskatt á matvæli á síðasta kjörtímabili? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn og fylgitungl hans sem boða nú veggjöld í massavís? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu? Sjálfstæðisflokkurinn getur lítið sagt um aðra. Hann er skattaflokkur.
En við munum ekki hækka skatta á almenning í landinu
heldur munum við reka sanngjarna skattastefnu;
með því að innheimta afnotagjöld af auðlindum og fá þá allra tekjuhæstu og eignamestu um að leggja aðeins meira til eins og tíðkast nú flestum skattkerfum í kringum okkur.
Og það er ekki nema sanngjarnt.
Ekki síst vegna þess að þetta er sá hópur sem græðir langsamlega mest í góðærinu,
en líka vegna þess að síðastliðin fjögur ár hefur skattbyrðin aukist hjá öllum öðrum tekjuhópum í landinu.
Allir tekjuhópar - nema þeir allra ríkustu - borga hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt nú en fyrir 4 árum.
Og þetta er sama þróun og við sáum á árunum 1991 til 2009.
En þetta er ekki náttúrulögmál;
það þarf ekki að vera þannig að skattbyrðin aukist hjá öllum - nema þeim sem þéna best og eiga mest.
Gerum betur.
Kæru félagar.
Það er nefnilega svo að við getum gert betur með þann frábæra efnivið sem við eigum.
Ísland er í meginatriðum frábært samfélag. Við búum í frábæru landi, við búum að góðum innviðum, hér er friðsælt og gott að vera, hér er ágæt almenn menntun, hreint vatn, frábært ungbarna- og mæðraeftirlit, frábært íþróttafólk, ótrúleg tónlist menning, einstök náttúra og svona gæti ég lengi talið. Við eigum svo margt.
En við getum gert betur. Og við þurfum öll: Forstjórinn og ræstitæknirinn. Trillukarlinn á Flateyri og bifvélavirkinn í Kópavogi. Framhaldsskólaneminn og ellilífeyrisþeginn. Smiðurinn og þingmaðurinn að átta okkur á því að við erum hluti af lausninni en ekki vandanum. Að við getum ekki byggt þetta samfélag öðruvísi en saman.
Ástæða þess að hér byggðist upp velferðarkerfi var að ólíkir aðilar tóku höndum saman um það verkefni. Það voru þau sem á undan okkar gengu. Og fyrir því þurfti að berjast en á endanum vannst sigur sem tryggði uppbyggingu samfélagslegra innviða og hnýtti samfélag okkar sterkari hnútum en áður.
Leiðin til að sameina íslenskt samfélag er að sameinast um uppbyggingu þessara innviða!
Fólkið í landinu vill eiga rétt á mannsæmandi öruggu og heilbrigðu lífi.
Fólkið í landinu vill vera varið fyrir óvissu.. Fólkið í landinu vill búa í húsnæði sem hefur efni á og vera í vinnu með sanngjörn og góð laun.
Fólkið í landinu vill geta treyst því að ríkisstjórn og Alþingi fari skynsamlega með fé þannig að ekki skapist of mikil þensla en um leið sé fjármunum varið til uppbyggingar í almannaþágu.
Fólkið í landinu vill geta treyst því að samfélagið grípi það þegar það dettur, vill geta treyst því að heilbrigðisþjónustan virki þegar það þarf á henni að halda, vill geta treyst því að afar okkar og ömmur sem byggðu upp þetta samfélag líði ekki skort og vill að börnin okkar fái að minnsta kosti sömu tækifæri og við.
En ef við viljum að þetta gerist skiptir máli hvernig við verjum okkar atkvæði. Við þurfum að taka stjórnina á þessu samfélagi og breyta stefnunni. Við viljum leiða ríkisstjórn um þau markmið, góða ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu Við viljum gera betur.
Kæru félagar,
það hefur ekki farið framhjá neinum að okkar sýn og okkar stefna á nú hljómgrunn í samfélaginu. Það er meðbyr með Vinstri-grænum og við finnum það hvar sem við komum. Og við finnum að sá meðbyr er með okkar stefnu – hann snýst ekki um óánægju með aðra flokka. Þetta er gríðarlega mikilvæg staðreynd sem sýnir að það er ákall um stefnubreytingu í samfélaginu sem við eigum að verða við. Sem sýnir að okkur hefur tekist að byggja okkur upp sem jákvætt stjórnmálaafl og að stefna okkar höfðar til fólks um land allt úr ólíkum áttum.
Við skulum samt varast að fagna um of góðu gengi í skoðanakönnunum;
mér er sama um góðar kannanir - ég vil góðar kosningar.
Og að sama skapi skulum við varast það að reyna að mynda ríkisstjórn fyrir kosningar.
Nú er okkar eina verkefni að sækjast eftir umboði almennings til að mynda ríkisstjórn eftir kosningar;
góða og trausta ríkisstjórn - sem gerir betur fyrir fólkið í landinu og ræðst í þá nauðsynlegu uppbyggingu á velferðarsamfélagi sem er kallað eftir hvaðanæva á landinu.
Kæru félagar,
nú skulum við nota þann meðbyr sem við finnum og kraftinn í okkar góða fólki
til að reka öfluga kosningabaráttu og sækja fram til sigurs.
Það er þrjár vikur til stefnu og við skulum nýta tímann vel;
með því að tala við fólk, kynna okkar sýn og fara með þann kraft alla leið inn í kjördaginn. Gerum betur, svörum ákallinu um stefnubreytingu og förum alla leið.
Og svo segjum við áfram Ísland. Íslenska karlalandsliðið er að spila við Tyrkland hér á eftir og þeir munu fara alla leið. Alveg eins og við förum alla leið hér í Vinstri-grænum!