Hagfræðideild Háskóla Íslands hefur nú reiknað líklegar tekjur af vatnsréttindum vegna Hvalárvirkjunar í minnisblaði sem gefið var út þann 3. október síðastliðinn. Í því kemur fram að brúttóárstekjur VesturVerks ehf. yrðu á bilinu frá 800 milljónum upp í einn og hálfan milljarð króna fyrsta árið. Leigugreiðslur til eigenda Ófeigsfjarðar verða áætlaðar stighækkandi frá 16 til 29 milljónum á ári í 84 til 158 milljónir árlega eftir 20 ár.
Gert er ráð fyrir að tekjurnar hækki umfram almennt verðlag með hækkandi rafmagnsverði. Eftir 15 ár verði brúttóárstekjur af virkjuninni á bilinu frá einum milljarði króna upp í allt að tveimur milljörðum króna.
Í minnisblaðinu kemur fram að HS orka eigi 70 prósent í Vesturverki. Verkís hefur reiknað orkugetu Hvalárvirkjunar miðað við að Neðra Eyvindarfjarðarvatni sé veitt í Hvalárvatn. Þannig sé áætlað að afl virkjunarinnar verði um 55 MW og að 320 GWh verði framleiddar á ári. Erfitt sé að áætla líklegt verð en árið 2016 var meðalverð Landsvirkjunar í heildsölu 4,6 krónur á kílówattstund, án flutnings.
Meðalverð til stóriðju, með flutningi, var allmiklu lægra, eða um 2,9 krónur miðað við meðalgengi bandaríkjadals 2016. Árið 2016 voru tekjur Landsvirkjunar af flutningi um 15 prósent af summu tekna af flutningi og rafmagnssölu. Í því ljósi sé áætlað að tekjur af rafmagnssölu til stóriðju án flutnings séu um 2,4 krónur á kílówattstundina.
Í minnisblaðinu kemur ennig fram að HS Orka, móðurfélag Vesturverks, selji Norðuráli rafmagn, en auk þess hafi fyrirtækið skrifað undir við Thorsil, sem ætlaði að reisa kísilver í Helguvík. En ekkert liggi enn fyrir um hvert rafmagn frá Hvalárvirkjun fer. Framkvæmdastjóri Vesturverks telji líklegt að það nýtist allt á Vestfjörðum, ef áætlanir um laxeldi á Vestfjörðum standist.
Á vefsíðu Landverndar segir að þau vinni að gerð athugasemda um auglýsta tillögu að breyttu aðalskipulagi í Árneshreppi á Ströndum, sem leyfa myndu 25 km af virkjunarvegum á óbyggðum víðernum Ófeigsfjarðarheiðar. Kemur þar fram að Hvalárvirkjun myndi hafa mikil og óafturkræft rask í för með sér og eyðileggja víðerni Vestfjarðakjálkans.