Hægt er að óska eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það hafa þingmenn Pírata í nefndinni gert, þau Eva Pandora Baldursdóttir og Jón Þór Ólafsson. Þau vilja ræða hvort núverandi forsætisráðherra í starfsstjórn hafi í störfum sínum sem þingmaður nýtt sér innherjaupplýsingar sjálfum sér og fjölskyldu sinni til framdráttar.
Tilefnið er ný gögn sem sýna að Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og núverandi starfandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni, fyrir um 50 milljónir króna, dagana fyrir bankahrunið, eftir að hafa meðal annars setið fund sem þingmaður um alvarlega stöðu bankans, og miðlað þeim áfram til bankamanna.
Þrjá nefndarmenn þarf til að koma á fundi og óska þau Eva Pandóra og Jón Þór eftir þriðja nefndarmanninum í viðbót til að taka undir þessa beiðni þeirra.
Þau telja að skoða þurfi hvort aðgangur þingmanna að þeim gögnum sem aflað í starfi geri það að verkum að þeir ættu að teljast innherjar. Sú atburðarrás sem opinberast hafi gefið tilefni til þess að nefndin ræði þetta mál sem fyrst.
Þó að tilkynnt hafi verið um þingrof verður þing ekki rofið fyrr en á kjördag. Þó að þingi hafi verið frestað þá halda þingmenn umboðinu sínu frá kjósendum og ábyrgð til að sinna eftirlitsskyldu, segir í beiðninni.