Birgitta Jónsdóttir, fráfarandi þingmaður Pírata, segir á Facebook-síðu sinni að hún stefni ekki á ráðherrastól. Uppi hafa verið vangaveltur um hvort til standi að hún verði ráðherraefni fyrir Pírata vegna stefnu þeirra að sækja sér ráðherra utan þings. Píratar mælast nú með 10 prósent fylgi samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans.
„Ég hef heyrt það víða að Sjálfstæðismenn séu eitthvað svefnlausir út af því að ég sé að stefna á einhverja stóla. Ég hef bara ekki neitt mátað mig í einn eða neinn stól nema skrifstofustólinn minn og undirbúning að bók um brautryðjandann sem bjó mig til og önnur mun fullkomnari verk, eins og t.d. lög við hin stórkostlegu ljóð; Verkamaður og Lífsbókin,“ segir hún í færslu sinni.
Ég hef heyrt það víða að Sjálfstæðismenn séu eitthvað svefnlausir út af því að ég sé að stefna á einhverja stóla. Ég hef...
Posted by Birgitta Jónsdóttir on Monday, October 9, 2017
Birgitta tilkynnti um miðjan september að hún væri hætt í stjórnmálum og að hún myndi ekki bjóða sig fram að nýju í komandi kosningum. „Ég hef lofað sjálfri mér því að hætta eftir þetta kjörtímabil, óháð lengd þessi.
Það er ekkert sem getur fengið mig til að skipta um skoðun. Ég er snortin af þeirri bylgju hvatningar að fara fram aftur sem ég hef fundið fyrir þvert á flokka sem og í grasrót minni,“ skrifaði Birgitta í september.
Birgitta var fyrst kjörin á þing í kosningunum 2009 þegar hún tók sæti sem Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður fyrir Borgarahreyfinguna, síðar Hreyfinguna. Hún var svo kjörin á Alþingi að nýju fyrir Pírata í Suðvesturkjördæmi árið 2013 og svo aftur í kosningunum í fyrra.
Birgitta hefur verið leiðandi í starfi Pírata hér á landi og verið dyggur talsmaður þess að stjórnarskrá Íslands verði endurskoðuð.