Friðlandið í Þjórsárverum verður stækkað í dag, . Verður það gert með því að umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, undirritar auglýsingu þess efnis.
Hið nýja friðland verður tæpir 1.563 ferkílómetrar að stærð.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Í frétt blaðsins kemur fram að tillaga að mörkum og friðlýsingarskilmálum stækkaðs friðlands í Þjórsárverum hafi verið auglýst í júlí, og frestur til að skila inn athugasemdum rann út 3. október síðastliðinn. Samkvæmt þeim tillögum verður hið nýja friðland 1.563 ferkílómetrar, en er nú 358 ferkílómetrar.
Lengi hefur verið deilt um Þjórsárver og virkjanahugmyndir sem þar hafa verið, og segir formaður Landverndar í viðtali við Fréttablaðið að nú sé málinu vonandi lokið. „Þetta hefur verið baráttumál í áratugi og er löngu, löngu, löngu tímabært enda er svæðið eitt af krúnudjásnum Íslands,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, formaður Landverndar. „Allt hið einstaka við hálendi Íslands er þarna samankomið. Undirritunin er vonandi lokapunkturinn í að vernda svæðið algjörlega og losna við allar virkjanahugmyndir.“
Þjórsárver voru fyrst friðlýst árið 1981.