Jim Yong Kim, bankastjóri Alþjóðabankans, segir að þjóðir heimsins séu nú að ganga í gegnum lærdómstíma vegna aukinnar sjálfvirkni í atvinnuháttum, sem muni leiða til þess að milljónir starfa muni hverfa, og ný störf skapast á öðrum vettvangi.
Kim segir að hætta sé á því að það geti skapast mikið ójafnvægi meðan þetta gengur yfir, og það geti leitt til erfiðleika.
Alþjóðabankinn heldur ársfund sinn í næstu viku, en hann hyggst á næstunni gefa þessari þróun sérstaklega gaum, og greina mannauð þjóða meðal annars með tilliti til menntunar, til að geta greint hvernig þróun mála er á vinnumörkuðum einstakra ríkja.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC segir Kim að bankinn vilji með þessari greiningarvinnu, koma fram með upplýsingar sem sýni hversu brýnt það sé fyrir þjóðir, að rýna í mannauð og menntun, með tilliti til þessara miklu samfélagsbreytinga.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hagvöxtur á heimsvísu verðu um 3,5 prósent á þessu ári, og 3,6 prósent árið eftir.
Í nýlegri greiningu sjóðsins segir þó, að töluverð hætta sé á því að breytingar á hinu pólitíska sviði, í átt að meiri tollamúrum og hömlum á alþjóðleg viðskipti, geti leitt til þess að hagvöxtur minnki. Þetta geti auk þess verið hættulegt á tímum þar sem hagkerfi séu að breytast, meðal annars vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar í atvinnulífi.