Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, segist ekki hafa ætlað að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandenda verða fyrir með ummælum sínum í þættinum Forystusætið á RÚV í gærkvöldi. Hann biður alla aðila málsins innilega afsökunar. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Benedikt hefur birt á Facebook.
Í þættinumlét hann þau ummæli falla um uppreist æru-málið sem sprengdi ríkisstjórnarsamstarfið að málið „sem þótti svo stórt að það var ástæða til stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er.“ Hann sagðist enn fremur ekki telja að málið hafi verið þannig vaxið að það hefði verið tilefni til stjórnarslita og að Sjálfstæðisflokkurinn væri búin að gefa nauðsynleg svör um uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna.
Í stöðuuppfærslunni segir Benedikt: „Í viðtalsþætti í gær notaði ég afar klaufaleg ummæli um tilefni stjórnarslitanna, þegar ég sagði að enginn myndi lengur um hvað málið snerist. Þar var ég að vísa til meðferðar málsins í stjórnsýslunni síðastliðið sumar, en sannarlega ekki til þeirra brota að sem að baki lágu.
Það er fjarri mér að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandenda verða fyrir. Öllum ber að tala af virðingu og auðmýkt í þessu samhengi og ég bið alla aðila málsins innilega afsökunar.
Það er óásættanlegt að slík mál séu hjúpuð leyndarhyggju og það er skýr skoðun mín og Viðreisnar að upplýsa um alla þætti málsins. Hefði það sjónarmið verið haft í heiðri hefðu allar upplýsingar legið á borðinu frá upphafi. Ég ítreka hve leitt mér þykir að hafa talað með þessum hætti.“
Í viðtalsþætti í gær notaði ég afar klaufaleg ummæli um tilefni stjórnarslitanna, þegar ég sagði að enginn myndi lengur...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Tuesday, October 10, 2017