Engin efni voru í skaðlegu mæli í þeim sýnum sem tekin voru í Helguvík vegna verksmiðju United Silicon. Þetta kemur fram í niðurstöðum mælinga Norsku loftrannsóknarstofnunarinnar á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum vegna kísilverksmiðju United Silicon sem borist hafa félaginu og Umhverfisstofnun.
Alls hafi 200 efni verið mæld en meðal þeirra 35 efna, sem hæst mældust, hafi ekkert þeirra verið á þeim kvarða sem þyki óeðlilegur í úthverfi eða þéttbýli.
Ákvörðun Umhverfisstofnunar um stöðvun reksturs Sameinaðs Sílikons hf. er samt sem áður óbreytt og er rekstraraðila óheimilt að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim. Þetta kemur fram á vefsíðu Unhverfisstofnunar.
Mælingarnar voru gerðar á sýnum sem tekin voru tímabilinu 21. maí til 23. júní í ár. Sýnin voru tekin í íbúðabyggð í námunda við verksmiðjuna, á lóð verksmiðjunnar og inn í henni þar sem styrkleiki efna ætti að vera hvað mestur, það er inn í ofnhúsi og síúhús. Þess ber þó að geta að á umræddu tímabili voru kvartanir til Umhverfisstofnunar vegna lyktar fremur fáar. Þetta segir í fréttatilkynningu frá United Silicon.
Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars að efnamælingarnar þyki dæmigerðar fyrir það sem þekkist utandyra yfir sumartíma í íbúðabyggð. Efnastyrkur í ofnhúsi var fremur lágur miðað við það sem þekkist í samskonar iðnaði, að því er segir í skýrslunni. Í síuhúsi, það er reyksíu verksmiðjunnar, voru vísbendingar um lífrænt anhýdríð sem gæti valdið lykt og tímabundinni ertingu í öndunarvegi og augum, tekið skal fram að síuhús er hluti hreinsibúnaðar verksmiðjunnar.
Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi reynst unnt að mæla formaldehýði á umræddu tímabili. Umhverfisstofnun óskaði í sumar eftir greiningu á formaldehýði í nágrenni United Silicon og í útblæstri síuhúss fyrirtækisins ásamt mælingu á öðrum gastegundum. Umsjón mælinga var í höndum Efnagreiningar Keldnaholti/Nýsköpunarmiðstöð.
„Við teljum þetta mikilvægt gagn í vinnu við að koma verksmiðjunni í rekstrarhæft horf. Enn er þó mikið verk óunnið. Mikilvægast er að vera viss um að öryggi íbúa á svæðinu og starfsmanna sé ekki ógnað og er því niðurstöður mælinga sem þessara forgangsatriði. Við munum halda þeirri vinnu áfram, fyrir liggja tillögur frá NILU um frekari mælingar en það er ekki hægt að ráðast í þær nema leyfi fáist á því að ræsa verskmiðjuna á ný,“ segir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon.
NILU er sjálfstæð rannsóknarstofnun með rúmlega þrjátíu ára reynslu af efnamælingum og hefur byggt upp mikið gagnasafn sem notuð eru til samanburðar.