Útvarpsstöðin K100, sem er í eigu Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, hefur náð samningum við Loga Bergmann Eiðsson um dagskrárgerð á stöðinni, auk þess sem hann mun starfa á ritstjórn Morgunblaðsins.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í Morgunblaðinu segir einnig að í undirbúningi sé framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni og dagskrárgerð með Loga Bergmanni, sem unnin verður í samvinnu Árvakurs og Sjónvarps Símans.
Logi Bergmann hóf störf á Morgunblaðinu 1988 en undanfarinn áratug hefur hann starfað hjá 365, og sinnt fréttalestri og dagskrárgerð, bæði í sjónvarpi og útvarpi.
Ráðning Loga Bergmanns tekur gildi strax og hefur hann hafið störf, að því er segir í Morgunblaðinu.
Logi kveðst spenntur yfir því að hefja störf hjá þessu rótgróna fjölmiðlafyrirtæki. „Ég er mjög spenntur og hlakka til að takast á við ný verkefni og þróa mig áfram á nýjum stað. Ég er sérstaklega spenntur yfir því að koma aftur heim. Það eru næstum þrjátíu ár síðan ég hóf störf á blaðinu. Mogginn reyndist mér alltaf mjög vel. Mig langar til að gera skemmtilegt og áhugavert efni. Ég mun gera það sama og ég hef gert í þrjátíu ár; að fjalla um fólk með fólki. Ég held að það verði mjög gaman að gera það á þessum stað,“ segir Logi við Morgunblaðið.