Mannlíf, nýtt fríblað, kemur út í fyrsta sinn á morgun. Blaðinu verður dreift á höfuðborgarsvæðinu í 80 þúsund eintökum. Það er samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum. Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins. Efnistök eru því afar fjölbreytt. Í Mannlífi er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að samstarfsverkefnið gefi Kjarnanum frábært tækifæri til að koma sínu efni til nýrra markhópa. „Kjarninn hefur skilgreint sig sem efnisframleiðanda um nokkurra ára skeið sem nýtir sér þær leiðir sem í boði eru til að koma efni til lesenda og neytenda. Við erum mjög spennt að sjá hver viðbrögðin verða fyrir þessari nýju viðbót á fjölmiðlamarkaðinn.“
Gunnlaugur Árnason, stjórnarformaður Birtings, segir að fyrirtækið sérhæfi sig í framleiðslu á hágæðaefni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk. „Framleiðslugeta Birtings er ekki fullnýtt og það er svigrúm til þess að auka hana og finna því efni nýjan farveg. Í núverandi mynd sinnir Birtingur ekki fréttaflutningi og þess vegna er samstarf við Kjarnann augljóst. Fríblaðið Mannlíf er samstarfsverkefni miðlanna, þar sem hver miðill sérhæfir sig í því sem hann gerir best, Við munum áfram leita hagkvæmra leiða til þess að þjónusta áskrifendur og lesendur tímarita Birtings enn frekar, jafnframt því að dreifa efni okkar til stærri hóps. Samstarfið við Kjarnann er fyrsta skrefið á þeirri vegferð.“