Stjórn Fáfnis Offshore hefur afskrifað rúmlega 1,1 milljarð króna fjárfestingu í hálfkláraða olíuþjónustuskipinu Fáfni Viking.
Fyrirtækið, sem er að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, var rekið með 244 milljóna króna tapi í fyrra en tekjur þess jukust um 27 prósent milli ára og námu 626 milljónum.
Norska skipasmíðastöðin Havyard AS rifti í ársbyrjun samningi frá mars 2014 við Fáfni Offshore, sem rekur sérútbúna olíuþjónustuskipið Polarsyssel, um smíði Fáfnis Viking sem var þá metið á um fimm milljarða króna.
Afhendingu þess hafði
þá verið seinkað tvívegis sökum
verkefnaskorts hjá íslenska fyrirtækinu
sem rekja mátti til mikillar
lækkunar olíuverðs. Smíði skipsins
var síðar færð í dótturfélag Fáfnis
Offshore, einkahlutafélagið Polar
Maritime, að kröfu sýslumannsembættisins
á Svalbarða sem hefur
leigt Polarsyssel í níu mánuði á ári og
þannig skapað eina verkefni Fáfnis. „Samkvæmt nýjum ársreikningi
fyrirtækisins fyrir 2016, sem Fréttablaðið
hefur undir höndum, greiddi
Fáfnir jafnvirði 169 milljóna króna
til Havyard þegar afhendingu
skipsins var frestað í annað sinn
og smíðin færð í dótturfélagið. Þar
heitir skipið ekki lengur Fáfnir
Viking heldur Hull 126 eða Skipsskrokkur
126. Hafði fyrirtækið áður
greitt Havyard 965 milljónir króna.
Norska skipasmíðastöðin yfirtók
Fáfni Viking þegar samningnum var
rift 2. janúar síðastliðinn,“ segir í frétt Fréttablaðsins.
Á ýmsu hefur gengið í sögu Fáfnis, frá því Steingrímur Erlingsson stofnaði félagið. Greint var frá því í sumar að hann hefði stefnt félaginu og viljað fá sex mánaða uppsagnafrest og orlof, eftir uppsögn. Núverandi stjórnendur Fáfnis höfnuðu þessu og gerðu gagnkröfu á Steingrím.
Þeir telja að hann hafi ekki staðið við skyldur sínar á uppsagnarfresti. Steingrímur hafi brotið trúnaðarskyldu og tekið með sér tölvu í eigu Fáfnis án leyfis þegar hann hætti störfum.
Síðla árs 2014 þótti Fáfnir Offshore afar áhugaverður fjárfestingakostur. Íslenskir fjárfestar, aðallega lífeyrissjóðir í gegnum framtakssjóði, kepptust við að fjárfesta í fyrirtækinu fyrir milljarða króna. Það var „hiti“ í kringum fyrirtækið og menn létu það ekkert mikið á sig fá þótt heimsmarkaðsverð á olíu hefði hrunið úr um 115 dölum á tunnu sumarið 2014 í um 60 dali í janúar 2015. Hermann Þórisson, framkvæmdastjóri Horns II, talaði meira að segja um það í viðtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í þeim mánuði að Fáfnir væri „fyrirtæki sem mjög áhugavert væri að sjá fara á markað. Vissulega eru erfiðar markaðsaðstæður í olíugeiranum akkúrat í dag, en þær voru mjög góðar fyrir sex mánuðum.“ Hermann sagði að ef ytri aðstæður myndu batna þá gæti Fáfnir Offshore vel verið nógu stórt til að fara á markað.
Ári síðar var heimsmarkaðsverð á olíu komið niður í 26,7 dali á tunnu. Það er tæplega fjórðungur þess sem það var sumarið 2014. Þumalputtareglan er sú að til að olíuvinnsla á norðlægum slóðum borgi sig þurfi heimsmarkaðsverð á olíu að vera að minnsta kosti 60 dalir á tunnu. Tugir skipa sem gera út á sama markað og Fáfnir Offshore hefur verið lagt og fyrirtækin sem eiga þau glíma nú við mikinn rekstrarvanda. Þá hefur olíuborpöllum í Norðursjó fækkað mikið.