Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar hefur gefið Carles Puigdemont forseta Katalóníu fimm daga frest til þess að gefa svar um það hvort hann ætli að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu.
Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC, en í fréttinni segir einnig að ef hann staðfesti fyrir næstkomandi mánudag að hann ætli að gera það, þá muni hann fá þrjá daga til viðbótar til að draga sjálfstæðisyfirlýsingu til baka.
Rajoy hefur sýnt mikla hörku í samskiptum við Katalínu, og hefur sagt að hann sé tilbúinn að beita 155. grein spænsku stjórnarskrárinnar til að svipta héraðinu sjálfstjórnarréttindum sínum, en stjórn héraðsins færi þá til spænskra stjórnvalda.
Catalonia: Spain celebrates National Day amid political turmoil https://t.co/hYRUpXU5Hi
— BBC News (World) (@BBCWorld) October 12, 2017
Puigdemont skrifaði undir sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu í gær, en frestaði jafnframt framkvæmdinni til að veita svigrúm til viðræðna.
Mikil óvissa hefur ríkt á Spáni eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Katalóníu þann 1. október síðastliðinn sem hefur verið dæmd ógild af stjórnlagadómstól Spánar.
Rajoy segir að nauðsynlegt sé að binda enda á stöðuna í Katalóníu til að tryggja öryggi í Barcelona og eyða öllum efasemdum að Spánn standi eftir - þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði - sameinaður. Allir aðrir möguleikar séu óásættanlegir.