Útgáfa og sala geisladiska og platna hérlendis hefur dregist stórlega saman á undanförnum árum en útgáfum hefur fækkað um helming frá því er best lét um miðbik síðasta áratugar. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.
Samdráttur í sölu eintaka og verðmæti frá útgefendum og dreifendum hefur verið enn meiri. Frá aldamótum lætur nærri að seldum eintökum hafi fækkað um 87 af hundraði og söluverðmæti lækkaði um 80 af hundraði reiknað á föstu verðlagi.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, segir að þessar fréttir komi ekki á óvart. Þetta rími við þær upplýsingar sem samtökin eru með en hún bendir þó á að sá hluti tónlistargeirans sem snýr að niðurhali og streymi hafi vaxið mikið á undanförnum árum.
87.000 manns nota Spotify á Íslandi
Eftir niðursveiflu á árunum 1999 til 2014 byrjaði markaðurinn aftur að vaxa árið 2015 og hefur verið í vexti síðan. Guðrún Björk segir að mikill fjöldi fólks á Íslandi nýti nú Spotify en um 66.000 manns greiði nú fyrir þjónustuna í landinu og 21.000 noti hana án gjalds. Um 9.000 af áskrifendum séu í fjölskylduákrift og megi þess vegna ætla að enn fleiri nýti sér streymisveituna.
Í frétt Hagstofunnar segir aftur á móti að ört vaxandi tekjur af niðurhali og streymi á tónlist hin allra síðustu ár vegi lítið upp á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í tekjum af sölu tónlistar. Frá 1979 og fram til 1991, er útgáfum tók að fjölga umtalsvert með tilkomu geisladisksins, voru að jafnaði gefin út innan við 70 hljóðrit árlega . Útgáfan náði hámarki árið 2006, en það ár voru útgefnir titlar 299 að tölu. Síðan hefur útgefnum titlum fækkað nær samfellt, en árin 2014 og 2015 voru útgáfurnar 142 og 138 hvort ár, eða víðlíka fjöldi og í upphafi tíunda áratugarins.
Árið 2016 seldust hér á landi 112 þúsund eintök geisladiska og hljómplatna samanborið við 868 þúsund eintök árið 1999 þegar fjöldi seldra eintaka náði hámarki. Frá árinu 2005 hefur seldum eintökum fækkað samfellt eða úr 823 þúsundum árið 2005.
Sala platna og diska í stafrænu formi dugar ekki
Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplatna og stafrænna skráa á síðasta ári nam 455 milljónum króna, eða innan við þriðjungi af söluverðmæti ársins 1999, reiknað á verðlagi þess árs. Á síðasta ári varð í fyrsta sinn í mörg ár lítilleg aukning í söluandvirði tónlistar frá fyrra ári. Stafar það af sífellt auknu vægi sölu á stafrænum skrám af heildarsölu platna og geisladiska.
Samkvæmt Hagstofunni hefur tilkoma sölu platna og diska í formi stafrænna skráa í niðurhali og streymi þó engan veginn dugað til að vega upp á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu geisladiska og hljómplatna. Frá árinu 2010 er tölur voru fyrst teknar saman um söluverðmæti stafrænna skráa nemur sala þeirra stöðugt stærri hluta af hljóðritasölunni talið í verðmætum, eða frá um sex af hundraði árið 2010 í 60 af hundraði af sölu síðasta árs.
Of fáir hlusta á íslenska tónlist á Spotify
Vandamálið, að mati Guðrúnar Bjarkar, er hins vegar að íslenskir notendur Spotify nota veituna síður til að hlusta á íslenska tónlist en talið er að um 6,7 prósent af streymi á Íslandi séu frá íslenskum höfundum. Hún segir að nokkur breyting hafi þó orðið á þessu ári en með vinsældum íslenskra rappara á Spotify virðist þetta hlutfall fara hækkandi.
En þrátt fyrir að tónlistarveitur komi ekki í staðinn fyrir plötusölu þá bendir Guðrún Björk á að áður en þær komu til sögunnar einkenndist geirinn mikið af sjóræningjastarfsemi og þjófnaði á netinu. Hún segir að þessar nýju aðstæður séu betri því þá sé allavega einhver til að semja við.
Aðrar veitur á borð við Facebook og YouTube stjórna einnig umferð tónlistar á netinu. Að mati Guðrúnar er mikilvægt að laga lagaumhverfði til að texta- og lagahöfundar fái greitt fyrir þá notkun sem þar á sér stað en evrópsk höfundaréttarsamtök séu að berjast fyrir slíkum breytingum innan ESB. Ekki sé sanngjart að fá lítið eða ekkert endurgjald fyrir það efni sem þessar stóru veitur streyma.
Rekstur STEFs hefur þó gengið ágætlega undanfarin ár, að sögn Guðrúnar Bjarkar. Samtökin hafi aukið tekjur á öðrum sviðum, til að mynda erlendis frá. Í heildina litið hafi því tekjur tónhöfunda í gegnum STEF aukist ár frá ári þrátt fyrir hrun á sölu hljómplatna.