Við yfirferð meðmælendalista í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður fundust falsaðar undirskriftir hjá tveimur framboðum. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um framboðslista Miðflokksins að ræða í öðru tilfellinu en eins og fram hefur komið í fréttum Íslensku þjóðfylkinguna í hinu. Um er að ræða afmarkað tilvik á einu meðmælendablaði.
Yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur vísuðu í dag til lögreglu fölskum undirskriftum á meðmælendalistum tveggja framboða í borginni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kjörstjórnunum. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvaða flokkar það eru, en áður hefur verið greint frá því að annar þeirra sé Íslenska þjóðfylkingin, sem dró af þessum sökum alla framboðslista sína til baka um helgina.
Í Suðvesturkjördæmi dró Íslenska þjóðfylkingin lista sinn til baka áður en farið var að hringja í fólk á meðmælendalistanum.
Hitt málið, sem kom upp í Reykjavíkurkjördæmi norður, er afmarkað, eins og það er orðað í tilkynningunni, og framboðið var úrskurðað gilt þrátt fyrir þær fölsku undirskriftir. Samkvæmt frétt RÚV segir Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnarinnar þar, að mikill stigsmunur sé á því og máli Þjóðfylkingarinnar.
Ástríður Grímsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, segir að kjörstjórnin muni hittast á fundi klukkan sex í dag og meðal annars ræða hvort vísa beri hinum fölsku undirskriftum til lögreglu. Þar sé Íslenska þjóðfylkingin ekki undanskilin þótt kjörstjórnin hafi ekki lagst í vinnu við að sannreyna að undirskriftir þeirra séu falskar. Þetta kemur fram í fyrrnefndri frétt RÚV.
Leiðrétting: Í upphaflegri frétt kom fram að athugasemdir hefðu verið gerðar við meðmælendalista Bjartrar framtíðar og Alþýðufylkingarinnar, og var vitnað til fréttar RÚV í því samhengi, en þetta er ekki rétt. Beðist er velvirðingar á þessu.