Fjölmargir hafa fordæmt og gagnrýnt lögbann á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti forsætisráðherra. Píratar og Björt framtíð hafa sent frá sér yfirlýsingu og hafa formenn VG og Samfylkingar tjáð sig um málið á Facebook. Gagnsæi, samtök gegn spillingu, hefur gefið út yfirlýsingu, Rithöfundasamband Íslands hefur sent frá sér ályktun um málið og PEN á Íslandi, samtök rithöfunda, þýðenda og ritstjóra sem vilja standa vörð um tjáningarfrelsið og vinna þeim málstað gagn heima og erlendis, fordæmt lögbannið.
Píratar og Vinstri græn fóru fram á fund með Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður þingnefndarinnar, að mikilvægt sé að nefndin fjalli um málið. Fundurinn verði líklega á fimmtudag, segir í frétt RÚV.
Í ályktun frá stjórn Rithöfundasambands Íslands um tjáningarfrelsið segir að stjórnin fordæmi lögbann sýslumannsins í Reykjavík á fjölmiðlana Stundina og Reykjavík Media.
„Yfirvöldum í lýðræðissamfélagi ber skylda til að standa vörð um tjáningarfrelsið. Málfrelsi og frelsi einstaklinga og fjölmiðla til tjáningar og umfjöllunar er hornsteinn siðmenningar og lýðræðis. Valdbeiting gegn tjáningarfrelsi er aðför gegn lýðræðinu. Við hörmum að slíkt geti gerst í okkar upplýsta landi og skorum á sýslumann að afturkalla lögbann sitt,“ segir í ályktuninni.
Félag fréttamanna sendi síðdegis frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun sýslumanns er fordæmd. Þar segir enn fremur: „Í stjórnarskránni kemur fram að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Þá megi aðeins setja tjáningarfrelsi skorður ef þær teljist nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þá kemur fram í lögum um fjölmiðla að markmið þeirra sé að stuðla að tjáningarfrelsi og rétti til upplýsinga. Félag fréttamanna bendir á að frjálsir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki fyrir lýðræði og sú umfjöllun, sem Stundin og Reykjavík Media hafa unnið upp úr gögnum þrotabúss Glitnis, varðar hagsmuni almennings. Félagið telur að lögbann sýslumanns gangi þvert gegn ofangreindum ákvæðum stjórnarskrár og fjölmiðlalaga. Félagið lítur það mjög alvarlegum augum að umfjöllun af þessu tagi sé stöðvuð. “
Krafa um að úrskurðurinn verði dreginn til baka
PEN á Íslandi, samtök rithöfunda, þýðenda og ritstjóra sem vilja standa vörð um tjáningarfrelsið og vinna þeim málstað gagn heima og erlendis, fordæmir lögbann sýslumannsins í Reykjavík á frekari umfjöllum Stundarinnar og Reykjavík Media um tengsl stjórnmálamanna og fjármálastofnanna sem unnin er upp úr gögnum þrotabús Glitnis. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.
„Það er óþolandi árás á tjáningarfrelsið að hægt sé að stöðva samfélagslega umræðu um mál sem varðar almenning án rannsóknar á því hvort viðkomandi fjölmiðlar hafi brotið lög og án efnislegrar fyrirtöku fyrir dómstólum og niðurstöðu þeirra.
Aðfarir sýslumanns við lögbannsúrskurðinn, þar sem ekki var gert ráð fyrir því að forsvarsmenn Stundarinnar og Reykjavík Media hefðu svigrúm til þess að kalla eftir lögfræðiaðstoð og undirbúa andmæli við lögbannskröfunni, minna á rassíur yfirvalda í einræðisríkjum gagnvart fjölmiðlum og skapa hættulegt fordæmi. Tímasetning lögbannsins í aðdraganda alþingiskosninga gefur svo tilefni til grunsemda um að baki þess liggi stjórnmálalegar ástæður. Íslenskt réttarkerfi og opinberar stofnanir eiga að vera hafnar yfir allan vafa um slíkt, sérstaklega þegar um er að ræða frelsi blaðamanna, eina af grundvallarstoðum þess lýðæðisríkis sem Ísland reynir að vera.
PEN á Íslandi krefst þess að Sýslumaðurinn í Reykjavík dragi lögbannsúrskurð sinn til baka og hvetur til þess að fram fari rannsókn á framgöngu sýslumanns í málinu öllu. Við skorum svo á næsta þing að hefja tafarlausa endurskoðun þeirra laga sem gera slíkar atlögur að tjáningarfrelsinu mögulegar,“ segir í yfirlýsingunni.
Í skugga þrífst spilling
Í fréttatilkynningu frá Pírötum segir að frá stofnun hafa þau varað við afleiðingum þess að þöggunarmenning fái að nærast í samfélaginu.
„Á síðustu sólarhringum hafa ótal konur stigið fram og rofið þöggunarmúrinn í tengslum við kynferðisofbeldi, sem er gríðarlegt framfaraskref.
En þöggun leynist víða, og í skugganum þrífst spillingin. Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir, og það er gert út frá upplýsingum. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir. Þegar ríkisvaldi er beitt til að hindra starfsemi fjölmiðla er verið að næra skuggahlið okkar samfélags með meiri þöggun. Það er ólíðandi,“ segir í tilkynningunni.
„Enn og aftur hefur Sýslumaðurinn í Reykjavík sett á lögbann á starfsemi fjölmiðla í þeim tilgangi að koma í veg fyrir fréttaflutning sem er óheppilegur fyrir fjársterka aðila og fjármálafyrirtæki. Enn og aftur gerir hann það þrátt fyrir ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu og skýr fyrirmæli frá Evrópuráði, og frá Alþingi, um að ekki sé ásættanlegt að skerða tjáningarfrelsi með tálmunum á útgáfu nema í mjög afmörkuðum undantekningartilfellum.
Hér er um að ræða fréttaflutning þriggja fjölmiðla um fjármálagjörninga sem áttu sér stað í aðdraganda stærsta fjármálahruns heimssögunnar, og vörðuðu meðal annars núverandi forsætisráðherra. Þótt persónuverndarrök eigi að vissu leyti við, og bankaleynd sömuleiðis, þá eru almannahagsmunir í þessu máli klárlega yfirsterkari.
Þetta er að öllu leyti samskonar mál og kom upp í ágúst 2009 þegar lögbann var sett á birtingu lánabókar Kaupþings sem sýndi stór óvarin lán til vina og vandamanna stjórnar bankans fyrir hrun.
Að endurtaka þennan leik núna er ekki til að bæta orðstír eða stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Ísland hefur sokkið frá 1. sæti á heimslistanum niður í það 10. á World Press Freedom Index á undanförnum árum út af nákvæmlega svona þöggunartilburðum. Þessu þarf að linna,“ segir jafnframt í tilkynningunni. „Það er algjörlega óásættanlegt að slíkt sé reynt. Píratar fordæma ritskoðun fjölmiðla með öllu.“
Alvarlegt inngrip í fjórða valdið
Björt framtíð lýsir þungum áhyggjum af stöðu lýðræðis í landinu í kjölfar þess að lögbann var sett á fréttaflutning af tengslum stjórnmálafólks og viðskiptalífs, þar sem hindruð hefur verið miðlun upplýsinga er varðar almannahag. Þetta kom fram í fréttatilkynningu þeirra um málið.
„Fyrir réttum mánuði síðan tók stjórn Bjartrar framtíðar ákvörðun um ríkisstjórnarslit, í kjölfar trúnaðarbrests og leyndarhyggju þar sem flokkurinn sem fór með forsætisráðuneytið varð uppvís að eiginhagsmunagæslu á kostnað fólks í viðkvæmri stöðu, þolenda ofbeldis,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir jafnframt að Björt framtíð fordæmi það gríðarlega alvarlega inngrip í fjórða valdið, starfsemi fjölmiðla og þar með aðhald með stjórnmálunum, sem felst í lögbanni því sem sett hefur verið á fréttaflutning fjölmiðlanna Stundarinnar og Reykjavík media um fjárhagsleg og viðskiptaleg hagsmunatengsl stjórnmálamanna sem almenningur á rétt á að vera upplýstur um. „ Sérlega alvarlegt hlýtur að teljast að binda hendur fjölmiðla í aðdraganda kosninga til Alþingis, ekki síst í ljósi þess að afleiðingar lögbannsins munu vara fram yfir kosningar.“
Óskiljanlegt að fallast á lögbannskröfuna
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir í Facebook-færslu að samtvinnun viðskipta og stjórnmála eigi fullt erindi við almenning. Ekki síst þegar um sé að ræða atburði sem tengdust hruni efnagskerfisins sem ollu fjölda fólks ómældum erfiðleikum og stórsköðuðu innviði landsins. „Það er óskiljanlegt að sýslumaður hafi fallist á lögbannskröfuna og vegið þannig bæði að tjáningarfrelsinu og rétti almennings til upplýsinga,“ segir í færslunni.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir einnig á samfélagsmiðlum að atburðir dagsins rifji upp lögbannskröfu sem lögð var fram árið 2009 vegna birtingar lánabókar Kaupþings en sú krafa var svo afturkölluð. Í því máli hafi því ekki verið úrskurðað á sínum tíma. Í máli gærdagsins sem varðar lögbannskröfu á Stundina hafi sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hins vegar fallist á lögbannskröfu þrotabús Glitnis.
„Ef takmarka á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hlýtur sýslumaður að þurfa að sýna fram á að það sé brýn nauðsyn fyrir þeirri takmörkun sem skilgreina megi sem nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi. Ef fjölmiðlar meta birtingu upplýsinga sem almennt heyra undir ákvæði laga um bankaleynd sem svo að þær varði almannahagsmuni í ljósi þess að þær varða opinberar persónur hlýtur sýslumaður að hafa mjög ríkan rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að verða við lögbannskröfu þrotabús Glitnis.
Niðurstaða sýslumanns kemur á óvart, Ég tek það þó fram að ég hef ekki séð þau gögn sem hann leggur til grundvallar sinni ákvörðun en hún verður væntanlega skýrð opinberlega,“ segir í færslu Katrínar.
Fleiri fordæma ákvörðunina
Gagnsæi, samtök gegn spillingu, fordæmir ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að setja lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media á málefni sem tengjast Glitni og forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.
Í henni segir meðal annars að frjáls fjölmiðlun sé hornsteinn í lýðræðissamféögum og í henni felist nauðsynleg vörn gegn spillingu. „Lögbann á umfjöllun Stundarinnar á bankaviðskipti forsætisráðherra fyrir hrun, að beiðni rekstraraðila gjaldþrota banka, er furðuleg: Glitnir HoldCo hefur engra sýnilegra viðskiptahagsmuna að gæta er varða viðskipti einstaklinga sem áttu sér stað í hinu gjaldþrota félagi fyrir 9 árum síðan. Til stendur að leysa Glitni HoldCo upp og afhenda kröfuhöfum eignir úr búi félagsins.Því á Glitnir HoldCo ekki hagsmuna að gæta er varðar viðskipti félagsins til framtíðar. Ekki kemur fram í tilkynningu frá Glitni Holdco hvaða hagsmuni þrotabúsins er verið að verja. Hagsmunir almennings eru hins vegar verulegir: Hann á rétt á upplýsingum um viðskiptahætti og viðskiptahagsmuni forsætisráðherra landsins, í tengslum við fall íslenska bankakerfisins árið 2008, á meðan hann sjálfur var fulltrúi almennings og bar því skylda til að gæta hagsmuna almennings,“ segir í tilkynningunni.
Formaður Blaðamannafélags Íslands fordæmdi einnig aðgerðirnar í gær og fjallaði Kjarninn um það. „Við mótmælum og fordæmum þessar aðgerðir og teljum að sýslumaður eigi ekkert erindi inn á ritstjórnarskrifstofur íslenskra fjölmiðla. Þessar aðgerðir eru aðför að tjáningarfrelsi fjölmiðla og rétti blaðamanna að afla sér gagna og vinna úr þeim. Bankaleynd þjónar engum nema þeim sem hafa eitthvað að fela!,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.