Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Þórólfur Halldórsson, segir í yfirlýsingu að með lögbanni á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media, sé í reynd verið að „frysta“ tiltekið ástand þar til réttaróvissu hafi verið eytt fyrir dómstólum.
Í yfirlýsingunni, sem birt er hér meðfylgjandi í heild sinni, er vitnað til laga um fjármálafyrirtæki, og feitletrað sérstaklega að sá sem veiti upplýsingum viðtöku sem bankaleynd gildi um sé bundinn þagnarskyldu.
Eins greint hefur verið frá, þá samþykkti sýslumaður lögbannsbeiðni Glitnis Holdco, félags sem stofnað var um eftirstöðvar eigna sem áður tilheyrðu slitabúi Glitnis, á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media. Á meðan lögbannið er í gildi, má ekki birta umfjallanir sem byggja á gögnunum.
Lögbanninu hefur verið harðlega mótmælt, meðal annars af formanni Blaðamannafélags Íslands, en stjórnmálamenn hafa einnig talað um að lögbannið sé óþarft inngrip í frjálsa fjölmiðlun.
Útlit er að fyrir að ekki verði niðurstaða komin í fyrrnefnda lagadeilu fyrir kosningarnar 28. október, en Glitnir hefur nú vikutíma til að birta þeim sem lögbannið beinist að, Stundinni og Reykjavík Media, stefnu í málinu og færa rök fyrir máli sínu fyrir dómstólum.
Lögmaður fjölmiðlanna sem lögbannið beinist að, Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl., hefur sagt að lögbannið sé alltof víðtækt og að það standist ekki. Það sem mestu skipti sé að umfjöllunin sem um ræðir, sem meðal annars fjallar um viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, fyrir og í hruninu þegar neyðarlögin voru sett, eigi erindi við almenning og fjölmiðlar hafi frelsi til að fjalla um það sem máli skipti í því samhengi.