„Við gerum ekki athugasemdir við það ef bankarnir myndu lækka eiginfjárhlutfall sitt í varfærnum skrefum,“ segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), í samtali við Morgunblaðið í dag. „Fjármálaeftirlitið myndi hins vegar ekki heimila bönkunum að greiða arð í það miklum mæli að eiginfjárhlutfall almenns eigin fjár þáttar 1 færi í 16%,“ segir hann og nefnir að 18% væri nærri lagi að teknu tilliti til stjórnendaauka bankanna sjálfra (e. planning buffer).
Fram kom í Morgunblaðinu í gær að samkvæmt greiningu Danske Bank eru íslensku bankarnir með mun ríflegra eigið fé en þekkist annars staðar á Norðurlöndum.
Samkvæmt því sem kom fram í blaðinu, þá gætu endurreistu viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, verið í stakk búnir til þess að greiða allt að 240 milljarða króna í arð til eigenda í því skyni að eiginfjárhlutfall þeirra verði með svipuðu sniði og annars staðar á Norðurlöndum, samkvæmt útreikningum sem fjallað var í Morgunblaðinu í gær.
Sé mið tekið af því sem Jón Þór segir í viðtali við Morgunblaðið þá er nær lagi að það sé hægt að greiða um 200 milljarða úr bönkunum til eigenda, án þess að efnahagslegum styrk bankanna sé ógnað.
Í nýlegri greiningu frá Danske Bank, um stöðu íslenska bankakerfisins, kom fram að það væri á traustum fótum, og að eiginfjárstaða þess væri ólík því sem þekkist á Norðurlöndunum.
Samtals er eigin fé Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka um 650 milljarðar króna, en ríkið á Íslandsbanka og Landsbankann og fullu, og 13 prósent hlut í Arion banka.
Eiginfjárhlutfall fjármálastofnana, sem kallað hefur verið „almennt eigið fé þáttar 1“ (e. Common Equity Tier 1), var um 23% að meðaltali hjá íslensku bönkunum í lok annars ársfjórðungs, en er um 16% að meðaltali hjá sambærilegum bönkum annars staðar á Norðurlöndum.