Jú, við búum í lýðræðisríki. En það er ekki þar með sagt að allir kjósi alltaf. Hvers vegna kjósum við þegar við kjósum?
Flestir benda á að það þurfi að nýta kosningaréttinn, fyrst hann er til staðar. Það ætti þó að vera réttur fólks að kjósa ekki ef það vill það ekki. Enginn er líka neyddur í að kjósa, þó margir séu hávært hvattir til þess.
En til hvers að kjósa ef maður veit ekki hvað maður er að kjósa eða hvers vegna?
Mannskepnan er nú í grunninn leiðinlega sjálfhverf. Fólk lætur sig varða hluti sem það telur koma sér við. Það er þó ekki svo að enginn hugsi um aðra. Sumir telja mannréttindi allra koma sér við. Margir telja annað fólk, fjölskyldu og vini til dæmis, koma sér við. Fæstir telja engan og ekkert koma sér við. Eitthvað kemur okkur alltaf við.
Á árum áður var kosningaþátttaka meiri. Ekki vegna þess að þá hafi fólk verið upplýstara en nú heldur vegna þess að fólki þóttu kosningar koma sér og sínu lífi við.
Hvers vegna þá að kjósa ekki? Niðurstöðurnar munu hafa áhrif á bæði mann sjálfan og aðra sem maður telur koma sér við, alveg eins og forðum. Allir lúta lögum þeim sem Alþingi setur. Hver hefur þá talið okkur trú um að það sé þýðingarlaust að kjósa?
Eitthvað í verklagi stjórnmála hefur gert marga afhuga þeim heimi sem stjórnmál eru. Þetta er einhvern veginn annar heimur, fráskilinn veruleikanum, sem hinn almenni borgari fær ekki skilið að komi sér við.
Píratar vilja breyta því. Píratar vilja sýna fram á að heimur stjórnmálanna ræðst af veruleikanum en ekki duttlungum dáleiðara. Píratar vilja sýna fram á að stjórnmál séu fyrir alla. Líka fyrir þig.
Endilega kjóstu! Ég kýs Pírata. Þú mátt kjósa hvað sem þú vilt.