Logi Bergmann Eiðsson má ekki hefja störf hjá Árvakri og Símanum líkt og hann hefur tilkynnt um að til stæði. Fyrrverandi vinnuveitandi hans, 365 miðlar, hafa fengið lögbann á störf Loga hjá þessum aðilum sem gildir til 31. október 2018. 365 mun í framhaldinu höfða staðfestingarmál á hendur Loga Bergmanni. Frá þessu er greint á Vísi.
Greint var frá því í síðustu viku að útvarpsstöðin K100, sem er í eigu Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, hefði náð samningum við Loga Bergmann Eiðsson um dagskrárgerð á stöðinni, auk þess sem hann mun starfa á ritstjórn Morgunblaðsins. Á sama tíma var greint frá því að í undirbúningi sé framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni og dagskrárgerð með Loga Bergmanni, sem unnin verður í samvinnu Árvakurs og Sjónvarps Símans. Ráðning Loga átti að taka gildi strax.
Í frétt Vísis segir hins vegar að í ráðningasamningi Loga sé kveðið á um 12 mánaða uppsagnarfrest og 12 mánaða samkeppnisbann að honum loknum.„365 var því nauðugur sá kostur að krefjast þess hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að lögbann yrði lagt á störf Loga Bergmanns hjá þessum aðilum. Af tillitsemi við Loga var krafa 365 sú að lögbanninu yrði afmarkaður tími til næstu 12 mánaða í stað 24 mánaða, eins og 365 hefði getað gert kröfu um á grundvelli starfssamnings Loga Bergmanns.
Leiðrétting:
Í upphaflegu fréttinni kom fram að lögbann hefði verið sett á störf Loga út mánuðinn. Hið rétta er að lögbannið gildir út októbermánuð 2018. Þetta hefur nú verið leiðrétt.