Formlegar samningaviðræður milli hollenska drykkjarvöruframleiðandans Refresco, og PAI Partners, um kaup síðarnefnda félagsins á félaginu, eru hafnar. Frá þessu var greint í tilkynningu félagsins í dag.
Refresco er risi á evrópskum drykkjarvörumarkaði en starfsmenn eru 5.500 og árleg velta yfir tveimur milljörðum evra, eða sem nemur um 250 milljörðum króna.
Fjárfestingafélagið PAI Partners SAS gerði 3. október síðastliðinn nýtt yfirtökutilboð í Refresco. Tilboðið hljóðaði upp á 1,6 milljarða evra og var 14 prósent hærra en fyrra yfirtökutilboð, sem hafnað var í apríl síðastliðnum. Miðað við gengi evru í dag er tilboðið upp á um 200 milljarða íslenskra króna.
tærsti einstaki hluthafi Refresco eru Stoðir, sem áður hétu FL Group. Verði yfirtökutilboðið samþykkt myndu Stoðir fá um 17,7 milljarða króna í sinn hlut. Hluturinn var metinn á 12,7 milljarða króna um síðustu áramót í bókum Stoða og því ljóst að hluthafar Stoða munu fá mun meira en það fyrir hann verði tilboðið samþykkt.
Refresco er eina eftirstandandi eign Stoða. Í vor áttu sér stað umtalsverð viðskipti með hluti í félaginu. Tvö félög, S121 ehf. og S122 ehf., eignuðust meirihluta í Stoðum. Samanlagt eiga þessi tvö félög 50,15 prósent hlut.
Fyrirliggjandi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá benda til þess að félögin tvö hafi greitt 4,8 milljarða króna fyrir 48,73 prósent hlut. Miðað við það verð má ætla að markaðsvirði Stoða væri um tíu milljarðar króna þegar viðskiptin áttu sér stað.
Miðað við yfirtökutilboðið virðist ljóst að hópurinn sem keypti hlutinn í Stoðum snemma á þessu ári, í viðskiptum sem litlar upplýsingar fást um, hefur hagnað mjög vel á fjárfestingu sinni. Og verði yfirtökutilboðinu tekið munu þeir geta leyst það fé út. Alls ætti hlutur þeirra að verða 8,9 milljarðar króna. Hópurinn hefur því tæplega tvöfaldað fjárfestingu sínu á örfáum mánuðum miðað við þær tölur sem gefnar eru upp í gögnum sem skilað var inn til fyrirtækjaskráar.
Gamlir lykilmenn úr FL og stjórnarmenn TM
En hverjir eru í þessum hópi? S121 og S122 eru í eigu fjögurra einkahlutafélaga og eins skráðs félags, Tryggingamiðstöðvarinnar. Félögin fjögur heita Helgarfell ehf., Esjuborg ehf., Einir ehf. og GGH ehf. Þrjú þeirra, eru í eigu aðila sem eru líka stórir hluthafar í Tryggingarmiðstöðinni. Og eigendur þeirra voru margir hverjir lykilmenn í FLGroup á árunum fyrir hrun.
Esjuborg er í 50 prósent eigu félags sem heitir Jöklaborg. Það er skráð í 100 prósent eigu Jóhanns Arnars Þórarinssonar, forstjóra og eins stærsta eiganda veitingarisans Foodco. Hinn helmingurinn í Esjuborg er í eig Riverside Capital SARL, félags sem er skráð í Lúxemborg.
Samkvæmt Panamaskjölunum er það félag í endanlegri eigu Fortown Corp, félags skráð á Möltu. Eigandi þess félags er Örvar Kærnested. RiversideCapital á líka 2,63 prósent hlut í Tryggingamiðstöðinni í gegnum íslenska félagið Riverside Capital ehf. Hann situr einnig í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar. Örvar var yfir starfsemi FL Group í London um tíma fyrir bankahrun og þar áður hjá Kaupþingi í níu ár. Hann er nú umsvifamikill fjárfestir. Hann settist í stjórn Stoða á síðasta aðalfundi félagsins, sem fór fram 21. apríl síðastliðinn.