Íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafa samþykkt að hefja þríhliða viðræður um að stækka Laugardalsvöll. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans voru fyrirhugaðar viðræður kynntar í borgarráði í dag og á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Nú stendur yfir blaðamannafundur með forsvarsmönnum KSÍ, Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Bjarna Benediktssyni, starfandi forsætisráðherra, þar sem verið er að kynna umrætt samkomulag.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er sá valkostur að KSÍ myndi kaupa Laugardalsvöll og í kjölfarið standa eitt að uppbyggingu vallarins með styrkjum frá UEFA og FIFA ekki lengur talinn raunhæfur. Vilji er til þess að stækka völlinn þannig að hann geti tekið við fleiri áhorfendum en þeim tæplega tíu þúsund sem hann tekur nú í sæti í ljósi þess að áhugi á íslenska karlalandsliðinu er þannig að það selst upp á hvern einasta landsleik á nokkrum mínútum. Þá er völlurinn rekinn með tapi á ári hverju og Reykjavíkurborg er því að niðurgreiða starfsemi hans.
Í kynningu sem verið að að fara yfir í höfuðstöðvum KSÍ núna kemur fram að nýr völlur án þaks muni kosta um fimm milljarða króna. Hins vegar er stefnan sett á það að byggja fjölnotavöll með þaki þar sem stofnkostnaður yrði meiri en rekstrartekjur gætu orðið mun hærri, m.a. með tónleikahaldi. Slíkur völlur myndi kosta um átta milljarða króna. Ef hann verður að veruleika þá verður hlaupabrautin fjarlægð og völlurinn sjálfur myndi færast tólf metra til hliðar.
Heimildir Kjarnans herma að búið sé að ræða við flesta formenn þeirra stjórnmálaflokka sem mögulegt sé að verði í ríkisstjórn að loknum kosningum. Á meðal þeirra allra sé vilji til að halda áfram með verkefnið og því virðist vera þverpólitísk samstaða um að ríkið komi að uppbyggingu Laugardalsvallar með beinum hætti.