Þrátt fyrir að hafa lækkað um 0,94 prósentustig hefur tryggingagjaldið hækkað um allt að þriðjung í krónum talið á undanförnum fjórum árum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en sé mið tekið af fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, þá verða tekjur ríkissjóðs af trygginargjaldi 99 milljarðar á næsta ári.
Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun gjaldið því hafa hækkað um 30 milljarða króna frá árinu 2013.
Á sama tíma hefur atvinnuleysi dregist jafnt og þétt saman, en það mælist nú um þrjú prósent, og er vöntun á vinnuafli í mörgum geirum atvinnulífsins.
„Tryggingagjaldið var hækkað til þess að standa straum af auknu atvinnuleysi í kjölfar hrunsins. Þetta var hugsað sem tímabundin aðgerð. Það myndaðist hins vegar mikil tregða hjá ríkisstjórninni að lækka gjaldið aftur þegar atvinnuleysi minnkaði. Gjaldið hefur ekki fylgt þróun atvinnuleysis til lækkunar,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í viðtali við Fréttablaðið.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að tryggingagjaldið geri það að verkum að fyrirtæki með fjórtán starfsmenn greiði í reynd kostnað sem samsvarar fimmtánda starfsmanninum.
Þetta bitni verulega á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, en þau eru meira en 70 prósent af hagkerfinu. „Tryggingagjaldið er vondur skattur sem leggst á öll laun og dregur úr nýsköpun í atvinnulífinu. Það bitnar sérstaklega á litlum fyrirtækjum þar sem launagjöld eru yfirgnæfandi hluti rekstrargjalda, en lítil fyrirtæki eru meginuppspretta nýrra starfa í efnahagslífinu,“ segir Halldór Benjamín í viðtali við Fréttablaðið.
Tryggingagjaldið stendur nú í 6,75 prósentum og er gert ráð fyrir að það skili um 90 milljörðum króna til ríkissjóðs í ár. Til samanburðar var hlutfallið 7,69 prósent árið 2013 en þá voru tekjur ríkissjóðs af gjaldinu tæpir 70 milljarðar. Hæst var hlutfallið 8,65 prósent árið 2011, eftir efnahagshrun en þá hækkaði atvinnuleysi snögglega og fór hæst í tæplega 10 prósent.