Markaðsvirði Eimskipafélagsins hækkaði um tæplega 2,5 milljarða í dag, en velta með bréf félagsins var 442 milljónir króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði mest allra, eða um 5,4 prósent, sem telst mikil hækkun á einum degi. Vísitala markaðarins hækkaði um 1,23 prósent, en á þessu ári hefur vísitalan lækkað um tæplega 10 prósent, en sé horft yfir tólf mánaða tímabils þá er lækkunin tæplega eitt prósent.
Verðmiðinn á félaginu er nú 50,6 milljarðar króna.
Um mitta þetta ár nam eigið fé félagsins 237 milljónum evra, eða sem nemur um 30 milljörðum króna. Hagnaður síðasta árs nam ríflega 21 milljón evra, eða um 2,6 milljörðum króna.
EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir skatta og afskriftir) á öðrum ársfjórðungi var í samræmi við væntingar félagsins, að því er fram kom í tilkynningu Eimskip til kauphallar.
Tekjur af áætlunarsiglingum hækkuðu um 22,4% og flutningsmiðlunartekjur hækkuðu um 84,3%, einkum vegna nýrra félaga í samstæðunni. Rekstrargjöld fjórðungsins hækkuðu um 46,4 milljónir evra eða 42,2% samanborið við annan ársfjórðung í fyrra.
Rekstrargjöld í áætlunarsiglingum hækkuðu um 27,9% og um 80,6% í flutningsmiðlun. „Hækkun kostnaðar í áætlunarsiglingum skýrist einkum af kostnaði tengdum aukinni afkastagetu siglingakerfisins, kostnaði tengdum ójafnvægi í flutningum til og frá Íslandi og hærri olíukostnaði. Einnig hærri launakostnaði bæði vegna styrkingar íslensku krónunnar og vegna almennra launahækkana og aukinna umsvifa. Hækkun rekstrargjalda í flutningsmiðlun er aðallega tilkomin vegna nýrra flutningsmiðlunarfyrirtækja og hærri verða á alþjóðaflutningamarkaði,“ sagði Gylfi Sigfússon, forstjóri, í tilkynningu félagsins til kauphallar.
Eins og með flest önnur skráð félög á Íslandi, þá eru íslenskir lífeyrissjóðir meðal stærstu eigenda félagsins. Stærsti einstaki eigandinn er þó Yucaipa American Alliance, í gegnum tvo sjóði, en samanlagt á félagið ríflega 25 prósent hlut.
Lífeyrissjóður verslunarmanna kemur næstur með tæplega 14 prósent hlut.