Fulltrúar allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi nema Sjálfstæðisflokks höfðu lýst yfir stuðningi við að gjaldtaka fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni ætti að miðast við tímabundin afnot af henni. Þetta kemur fram í greinargerð Þorsteins Pálssonar, sem stýrði nefnd um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni um stöðu mála í nefndinni sem send var ráðherra 13. október síðastliðinn. Vegna þingrofs og kosninga hefur starfi nefndarinnar verið slitið.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði nefnd í maí 7 til að koma með tillögur um hvernig megi tryggja sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Í ljósi þingrofs ákvað Þorsteinn, sem var skipaður formaður nefndarinnar, að senda greinargerð um stöðu mála í starfi hennar. Í bréfi sem fylgir greinargerðinni segir Þorsteinn m.a.: „Þegar ákveðið var að rjúfa þing og efna til kosninga 28. október næstkomandi stóðu mál þannig að fulltrúar tveggja flokka, Viðreisnar og Framsóknarflokks, höfðu lagt fram tillögur í nefndinni, hvor í sínu lagi. Ennfremur höfðu fulltrúar allra flokka, nema Sjálfstæðisflokks, lýst stuðningi við það grundvallarsjónarmið að gjaldtaka skyldi miðast við tímabundin afnot af fiskveiðiauðlindinni.“
Þorsteinn segir enn fremur að eftir fund nefndarinnar 6. október síðastliðinn hafi hann gert „ráðherra munnlega grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki á þeirri stundu tilbúinn að fallast á að tímabundinn veiðiréttur skyldi vera grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Um leið lét ég það álit mitt í ljós að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags um önnur atriði meðan sá flokkur sem fer með forystu fyrir ríkisstjórn opnaði ekki með ótvíræðum hætti fyrir lausn á þeirri forsendu. Þetta mat mitt er óbreytt. Að minni hyggju er tímabundinn afnotaréttur forsenda fyrir því að ná megi tveimur afar mikilvægum markmiðum í löggjöf um þessi efni: Annars vegar að lagareglurnar endurspegli með alveg ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar. Hins vegar að þær megi stuðla að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.“
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefndinni er Teitur Björn Einarsson alþingismaður.
Tvær tillögur lagðar fram
Líkt og áður sagði voru tvær tillögur lagðar fram á vettvangi nefndarinnar. Aðra lagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, fram í ágúst síðastliðnum. Samkvæmt tillögunni skyldi gjaldtakan endurspegla arðsemi nýtingar auðlindarinnar á hverjum tíma. Jafnframt skyldi hún viðhalda hvötum núverandi fyrirkomulags varðandi sjálfbæra nýtingu. Ennfremur þyrfti gjaldtakan að fela í sér svigrúm til mótvægisaðgerða á sviði innviðauppbyggingar og vera eins einföld og gagnsæ og kostur væri.
„Samkvæmt tillögunni skyldu gerðir staðlaðir nýtingarsamningar sem væru einkaréttarlegs eðlis. Núverandi gjaldtöku yrði hætt samtímis, en í stað þess yrðu lausu samningarnir seldir á markaði. Öll íslensk fiskiskip með leyfi til veiða gætu keypt aflahlutdeild á markaði í samræmi við gildandi reglur.
Skipulag sölu á aflahlutdeild yrði hagað á þann hátt að það stuðli að eðlilegri verðmyndun, skilvirkni og sanngjarnri skiptingu ábata. Gert er ráð fyrir að styðjast við svokallað „clearing house” fyrirkomulag.
Á hverju ári yrðu 4% nýtingarsamninganna lausir og allir nýir samningar væru til 25 ára. Þá skyldi hluti tekna af sölu aflahlutdeilda renna í sérstakan innviðasjóð.“
Tilgangslítið að halda áfram vegna andstöðu Sjálfstæðisflokks
Hin tillagan sem lögð var fram kom frá Páli Jóhanni Pálssyni, fulltrúa Framsóknarflokksins og fyrrverandi alþingismanni. Hún var einnig lögð fram í ágúst. Lagði hann fram frumvarp sem Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vann á sínum tíma í ráðuneytinu en var aldrei lagt fram á Alþingi og ekki birt. í Greinargerðinni segir að frumvarpið hafi staðfest að um tímabundna nýtingarsamninga væri að ræða. „Aflahlutdeildum skyldi ráðstafa með samningum um leigu á aflahlutdeild milli íslenska ríkisins og aðila sem eiga skip með almennt veiðileyfi. Gildistími samninganna var nefndur 23 ár, í það lengsta. Leigugjald yrði ákvarðað af ráðherra með reglugerð ár hvert, eigi síðar en 15. júlí. Þá gerði frumvarpið ráð fyrir að veiðigjöld yrðu ákvörðuð með hliðsjón af nýrri gögnum en nú er gert og endurspegli betur stöðu fyrirtækjanna á þeim tíma er þeim er gert að greiða veiðigjöldin.“
Í greinargerðinni segir Þorsteinn frá því að á fundi nefndarinnar 6. september síðastliðinn hafi hann ítrekað þá skoðun sína að mikilvæg forsenda fyrir áframhaldandi leit að lausn væri samstaða um að gjaldtaka skyldi miðast við tímabundin afnot auðlindarinnar. Á það hafi allir flokkar geta fallist nema Sjálfstæðisflokkurinn sem ekki var tilbúinn til þess að svo komnu máli. „Í beinu framhaldi af fundi nefndarinnar 6. september síðastliðinn gerði ég ráðherra munnlega grein fyrir því að ég teldi tilgangslítið að halda tilraunum til samkomulags um önnur álitaefni áfram að óbreyttri afstöðu forystuflokks ríkisstjórnarinnar til tímabundinna réttinda. Þetta mat mitt er óbreytt.“